Léleg fjármálastjórn aðeins hluti vandans

Heildarkostnaður Félagsbústaða vegna framkvæmda við Írarbakka 2-16 var 728 milljónir …
Heildarkostnaður Félagsbústaða vegna framkvæmda við Írarbakka 2-16 var 728 milljónir kr. Ljósmynd/Aðsend

Léleg fjármálastjórn Félagsbústaða er aðeins eitt merkið um vondan rekstur og þörf er á róttækum aðgerðum eigi að byggja upp traust milli leigjenda félagslegs húsnæðis í Reykjavík og borgarinnar og stofnana hennar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum, sem fagnar því ætli stjórn Félagsbústaða að nýta þau tímamót sem félagið standi á til að endurskoða rekstur félagsins og framkomu þess gagnvart leigjendum.

Ástæða sé þó til að minna á að ekki hafi enn verið sinnt alvarlegum athugasemdum umboðsmanns Alþingis frá miðju ári 2016. Umboðsmaður benti þá á að með stofnun Félagsbústaða hafi réttarvernd leigjenda félagsleg húsnæðis hjá Reykjavíkurborg veikst til muna og staða þeirra á annan hátt versnað.

„Stjórn Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum mun því ekki sætta sig við loforð um bót og betrun nú, heldur krefjast þess að fyrirkomulag útleigu á félagslegu húsnæði í Reykjavík verði endurskoðað; starfsaðferðum breytt, viðmót lagað og að leigjendur hjá Félagsbústöðum og samtök þeirra verði höfð með í ráðum við þá endurskoðun,“ segir í yfirlýsingunni.

Félögum í Félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum sé ljóst að þörf sé á róttækum aðgerðum eigi að byggja upp traust milli leigjenda félagslegs húsnæðis í Reykjavík og borgarinnar og stofnana hennar. Léleg fjármálastjórn Félagsbústaða sé aðeins eitt merkið um vondan rekstur.

Önnur merki um lélegan rekstur séu „samskiptavandi milli leigjenda og skrifstofu félagsins, slæmt viðmót starfsfólks og mikill dráttur á að öllum erindum, stórum sem smáum, sé sinnt. Það er mat stjórnar Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum að vonda fjármálastjórn, jafnt sem lélega þjónustu við leigjendur og slæmt viðmót, megi rekja til þess að Félagsbústaðir voru ekki stofnaðir til að halda utan um góða félagslega þjónustu heldur til að verða eins og hvert annað leigufyrirtæki á markaði, sams konar fyrirtæki og þeir leigjendur sem sækja um félagslegt húsnæði á vegum borgarinnar eru að flýja.“

Hvetur stjórnin því Reykjavíkurborg og stjórn Félagsbústaða að taka málið alvarlega og að Félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum verði veitt aðkoma að endurskoðun kerfisins, sem og sæti í stjórn  þeirra félaga sem leigi út félagslegt húsnæði Reykjavíkurborgar.  „Aðeins með þeim hætti verður tryggt að Félagsbústaðir haldi tryggð við erindi sitt, sem er fyrst og fremst að tryggja sem flestum borgarbúa öruggt og ódýrt húsnæði og góðan valkost við hinn grimma óbeislaða húsnæðismarkað.“

Hlutverk Félagsbústaða sé að vera skjól fyrir þá sem ekki geti leigt á almennum markaði, en ekki að „apa eftir viðmót og herma eftir starfsaðferðum þeirra leigufélaga sem drottna yfir hinum grimma markaði“. Besta leiðin til þess er að Félagsbústaðir finni aftur að hlutverk þeirra sé að leigjendur marki sjálfir stefnuna og móti starfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert