Framsalsmálið tekið upp á ný

mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti í gær farbannsúrskurð yfir meintum höfuðpaur í svo nefndu Euromarket-máli eftir að dómsmálaráðuneytið upplýsti ríkissaksóknara um að það ætli að taka upp að nýju framsalsmál mannsins. Landsréttur felldi í síðustu viku úr gildi framsalsbeiðni pólskra yfirvalda, sem héraðsdómur hafði áður samþykkt.

Framsals­beiðni pólskra yfirvalda byggði á því að þau hefðu til rann­sókn­ar aðild manns­ins að skipu­lagðri glæp­a­starf­semi og flutn­ingi fíkni­efna milli landa, brot sem varði allt að 15 ára fangelsisdóm. Hér á landi er maðurinn hins vegar eingöngu grunaður um peningaþvætti.

Fram kemur í úrskurðinum að mál mannsins hafi nú aftur verið tekið til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu og að ráðuneytið hafi upplýst ríkissaksóknara um að senda þurfi það í rannsókn á ný. Í framhaldi verði það síðan sent í hefðbundinn farveg framsalsmála.

Í úrskurðinum  segir enn fremur að lögreglan telji manninn hafa tengslanet og fjárhagslega burði til að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti  undan málsmeðferðinni. 

Rann­sókn lög­reglu á Europmarket-mál­inu er ein sú um­fangs­mesta sem ráðist hef­ur verið í á skipu­lagðri glæp­a­starfs­semi. Alls höfðu 28 ein­stak­ling­ar og fjór­ir lögaðilar rétt­ar­stöðu grunaðra hér­lend­is í mál­inu, en það snýr að fíkni­efna­fram­leiðslu, fíkni­efna­smygli, fjár­svik­um og pen­ingaþvætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert