Fyrir þá sem vilja vakna brosandi

Jón Axel, Ásgeir Páll og Kristín Sif boða líflegan morgunþátt …
Jón Axel, Ásgeir Páll og Kristín Sif boða líflegan morgunþátt sem er byrjaður þegar aðrir sofa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

K100 er fyrsta útvarpsstöðin sem hefur dagskrá klukkan sex að morgni og munu Jón Axel Ólafsson, Ágeir Páll Ásgeirsson og Kristín Sif Björgvinsdóttir stýra þættinum Ísland vaknar. Segja þau í samtali við blaðamann að þátturinn sé fyrir þá sem vilja vakna brosandi.

Dægurútvarp á morgnana hefur lengi verið í föstu formi á Íslandi að sögn Jóns Axels. „Það er mikið fjallað um pólitík, hnjáliðaaðgerðir og svona mál. Við ákváðum fyrst og fremst að hafa þetta bara skemmtilegt,“ segir Jón Axel í Morgunblaðinu í dag.

„Við erum með þátt fyrir þá sem vilja vakna brosandi,“ bætir Ásgeir Páll við. „Vilja ekki allir vakna brosandi?“ spyr Kristín Sif. Jón Axel svarar því neitandi: „Sjáðu bara Gassa bróður til dæmis. Hann vaknar aldrei brosandi.“ Ásgeir Páll fullyrðir hinsvegar: „Gassi bróðir þinn brosir aldrei þegar hann heyrir í þér,“ og uppsker mikinn hlátur.

Vita hvernig jörðin snýst

Spurð hvers vegna þau ætli að byrja daginn svona svakalega snemma svara þau að það hafi verið augljós þörf. „Við skoðuðum þetta og komumst að því að margt fólk er komið á fætur klukkan sex. Líkamsræktarstöðvarnar eru fullar af fólki og það vantar að vita hvernig jörðin snýst,“ segir Ásgeir Páll.

„Við ætlum að hafa þetta bara skemmtilegt og Kristín heldur okkur við efnið,“ segir Jón Axel. „Hún tekur dálítið kótelettukarlafílinginn út úr sögunni,“ skýtur Ásgeir Páll inn í og hlær. „Það þarf nú að ýta þeim aðeins út fyrir rammann,“ segir Kristín. Ágeir Páll lýsir hinsvegar áhyggjum af því að Kristín eigi það til að ganga langt í þeim efnum og vísar til þess að í gærmorgun hafi hún látið þá smakka orma.

„Þegar ég frétti fyrst að ég ætti að vera með ykkur og þekkti ykkur ekki neitt hugsaði ég bara að þetta yrði eitthvað skrýtið,“ segir Kristín Sif og skellir upp úr. „En svo þegar við byrjuðum þá bara féll þetta eins og flís við rass,“ bætir hún við.


 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert