Jákvætt að tilkynningum hafi fjölgað

Halldóra rakti hver staðan er í borginni í málum tengdum …
Halldóra rakti hver staðan er í borginni í málum tengdum heimilisofbeldi. AFP

Áhrif heimilisofbeldis á börn eru þau sömu og ef börnin yrðu sjálf fyrir ofbeldi. Þetta sagði Halldóra Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, á ráðstefnunni „Gerum betur“ um vinnu í tengslum við heimilisofbeldismál.

Halldóra rakti hver staðan er í borginni í málum tengdum heimilisofbeldi. Verkefninu „Saman gegn ofbeldi“ var hrint af stað árið 2014 en við það breyttist verklag og tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað úr 208 árið 2014 í Reykjavík í 451 tilkynningu í fyrra.

Þegar hringt er í 112 vegna heimilisofbeldis kemur lögregla og ráðgjafar handa brotaþola á staðinn. Ef barn er á staðnum kemur einnig starfsmaður barnaverndar. Málum er fylgt eftir með viðeigandi aðstoð fyrir brotaþola og gerandi er hvattur til að sækja sér meðferð.

Áður segir Halldóra að lögregla hafi komið ein þegar hringt var í 112 og hún segir að vinnubrögð séu mun betri núna. Hún telur að útköllum hafi fjölgað af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að þolendur hafi trú á verkefninu „Saman gegn ofbeldi“ og vegna þess að lögregla skrái nú öll heimilisofbeldismál sem slík. Áður hafi þau stundum verið skráð sem „ágreiningur“.

Halldóra lagði áherslu á að fólk ætti ekki að vera fast í einhverjum fyrirframákveðnum hugmyndum þegar talað er um heimilisofbeldi. „Það er milli tengdra og skyldra. Getur verið barn að beita foreldri ofbeldi eða foreldri gegn barni,“ sagði Halldóra og bætti við að það væri ekki eingöngu karl gegn konu.

Hún sagði að reynsla nýja verklagsins í Reykjavík skilaði árangri og þeir sem hefðu samanburðinn, brotaþolar, væru ánægðir með nýju áherslurnar. „Það er leiðinlegt að segja þetta en lögregla þarf allt of oft að koma oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á sama staðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert