Tók veski af manni í hjólastól

Maðurinn var m.a. ítrekað stöðvaður við fíkniefnaakstur.
Maðurinn var m.a. ítrekað stöðvaður við fíkniefnaakstur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi sl. föstudag karlmann í hálfsárs fangelsi fyrir ítrekuð brot  sem m.a. voru framin er hann var enn á skilorði. Var manninum þá dæmt til refsiþyngingar að hafa stolið veski af manni í hjólastól.

Maðurinn, sem er fæddur 1980, á langan sakaferil að baki. Hann hafði hlotið reynslulausn í apríl 2016 með því skilyrði að hann gerðist ekki sekur um nýtt brot næsta árið. Fyrstu brotin sem hann var dæmdur fyrir nú voru framin í september þetta sama ár, en þá notaði hann kreditkort konu til að svíkja út vörur í verslunum að andvirði rúmlega 67.000 kr. og hrifsaði veski af karlmanni sem hann hafði geymt undir setunni á hjólastól sínum, og hljóp með það á brott.

Þá var hann ítrekað stöðvaður við fíkniefnaakstur og var þá, að því er fram kemur í dóminum, óhæfur um að stjórna bílnum vegna áhrifa fíkniefna og slævandi lyfja, m.a. amfetamíns, morfíns og oxýkódons.

Eins hafi maðurinn farið inn í bíla og stolið þaðan lausamunum.

Er það mat dómsins að hæfileg refsing sé sex mánaða fangelsisvist, auk þess sem hann þurfi að taka upp fyrri skilorðsdóm. Þá var hann sviptur ökuréttindum í þrjú ár, en hann hafði árið 2015 verið sviptur ökuréttindum í þrjá mánuði vegna sambærilegra brota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert