Hefur fundið rúmlega 900 flóttamenn

TF-SIF.
TF-SIF. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug í byrjun mánaðar til Malaga á Spáni til að sinna landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Það sem af er mánuði hefur vélin fundið rúmlega 900 flóttamenn í eftirlitsflugi sínu. Það er svo í höndum spænskra yfirvalda að koma flóttafólkinu í öruggt skjól og fara með málefni þess. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni

Gærdagurinn var óvenju annasamur hjá áhöfninni á TF-SIF en þá fundust 17 bátar með um 300 manns innanborðs. Landhelgisgæslan er afar stolt af því að vera hluti af þessu öfluga verkefni enda mikilvægt framlag Íslands til leitar- og björgunarstarfa á ytri landamærum Evrópu.

Samkvæmt Frontex komu þriðjungi færri flóttamenn til Evrópu í september en á sama tíma í fyrra en komur flótta- og farandfólks til Spánar hafa á sama tíma fjórfaldast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert