Greindist á 21. viku meðgöngu

Ragnar Snær og Fanney Eiríksdóttir með mánaðargömlum syni sínum sem …
Ragnar Snær og Fanney Eiríksdóttir með mánaðargömlum syni sínum sem er enn á vökudeild. Kristinn Magnússon

Fanney Eiríksdóttir greindist með leghálskrabbamein á 21 viku meðgöngu en vegna alvarleika meinsins var sonur hennar og Ragnars Snæs Njálssonar tekinn með keisaraskurði á rúmlega 29. viku meðgöngu. Drengurinn þeirra er nú á vökudeild og Fanney í lyfja- og geislameðferðum. Hressleikarnir, góðgerðarverkefni heilsuræktarstöðvarinnar Hress, styrkir í ár þessa hafnfirsku fjölskyldu en fyrir eiga Fanney og Ragnar fjögurra ára dóttur. Hressleikarnir eru haldnir 3. nóvember og rennur allur ágóði til fjölskyldunnar.

Fór að blæða á meðgöngu

„Meðgangan hafði gengið vel fyrir sig nema ég lendi í að það blæðir hjá mér þegar ég fer á klósettið, tvisvar sinnum með viku millibili. Verandi ólétt ákvað ég að hringja upp á kvennadeild og spyrjast fyrir og þær sögðu mér að koma og láta kíkja á mig. Ekkert kom í ljós sem benti til að eitthvað væri að þunguninni í sjálfu sér en í framhaldinu kíkir kvensjúkdómalæknir á mig og eftir rannsóknir kemur í ljós að það blæðir úr leghálsinum. Ég man að það er tekið sýni á fimmtudegi og sent í greiningu til að kanna hvað sé í gangi, þarna er ég komin 21 viku á leið. Á mánudeginum fæ ég símtal frá lækninum, sem spyr hvort ég sé með eiginmanni mínum og biður okkur að koma upp á spítala. Við vorum þá fjölskyldan að gera okkur glaðan dag, höfðum keyrt út úr bænum með dóttur okkar og vorum nýkomin í dýragarðinn í Slakka. Ég segi að við séum úti á landi og hann segir að það sé ekkert mál, hann geti alveg beðið eftir okkur fram eftir degi. Ég áttaði mig þá á að við værum ekki að fara að fá góðar fréttir.“

Ragnar bætir við að alvarlegt í þeirra huga á þessum tímapunkti hafi verið fjarri þeim alvarleika sem bjó í þessu máli.

„Nei, okkur hefði aldrei dottið það í hug. Ég bað um að fá að koma samt daginn eftir, því ég vildi ekki fara að bruna strax til baka og skemma daginn í dýragarðinum fyrir dóttur minni. En þetta var fast í huganum, maður vissi að eitthvað væri í vændum.“

Daginn eftir hitta þau Fanney og Ragnar lækninn og í teymið hafði bæst krabbameinslæknir

Litli drengurinn fékk nafnið Erik Fjólar.
Litli drengurinn fékk nafnið Erik Fjólar. Kristinn Magnússon


„Þau teiknuðu þetta upp og útskýrðu en ég skildi þó ekkert í fyrstu. Það var ekki fyrr en ég spurði hreint út hvort þau væru að segja mér að ég væri komin með krabbamein sem ég áttaði mig,“ segir Fanney.

„Hvert atriðið á fætur öðru bættist svo ofan á. Fyrst var að meðtaka að Fanney væri með krabbamein en svo kyngja þeim fréttum að krabbameinið væri orðið það umfangsmikið að það væri ekki skurðtækt.“

Fyrsta val læknanna, með tilliti til heilsu og lífs Fanneyjar, var að eyða fóstrinu.

„Í augum lækna gengur heilsa móður fyrir en við gátum ekki einu sinni ímyndað okkur það. Þarna var meðgangan hálfnuð, við vorum búin að fá að vita að þetta væri drengur. Það var búið að segja okkur að geislarnir myndu skemma það mikið að ég myndi ekki geta orðið ófrísk aftur. Ég var ekki til í að gefa þetta barn upp á bátinn og þurfti held ég ekki sekúndu til að ákveða það.“

Ekki á leið í lyfjameðferð heldur keisara

Fréttirnar voru ekki síst áfall fyrir Fanneyju þar sem frumubreytingarnar í leghálsinum höfðu átt sér stað undanfarin ár og fólki hafði sést yfir þær í strokum og öðrum skoðunum sem Fanney hafði alla tíð farið samviskusamlega í.

„Ég byrjaði í lyfjameðferð þótt ég væri ólétt og ekki væri alveg vitað hvaða áhrif krabbameinslyfin hefðu á barnið, við urðum að taka þá erfiðu ákvörðun í ljósi þess á hvaða stig krabbameinið var komið, það var það mikið í húfi að það þoldi ekki bið. Von læknanna var að meðferðin myndi annaðhvort halda þessu í skefjum eða minnka það en það varð þveröfugt og það stækkaði þrátt fyrir meðferðina. Því varð að grípa fyrr inn í og koma drengnum í heiminn með keisara svo ég gæti undirgengist geislameðferð.“

Í upphafi stóðu vonir til að barnið gæti fengið að þroskast í móðurkviði til 35. viku að minnsta kosti en þegar ljóst var hvert stefndi var Fanney einn daginn mætt og sagt að í stað þess að vera að fara í lyfjameðferð daginn eftir væri hún á leið í keisara eftir örfáa daga.

„Lyfjameðferðirnar hafa farið mjög illa í Fanneyju og þarna bættust við áhyggjur af því að drengurinn væri að koma of snemma í heiminn þar sem Fanney hafði lítið getað nærst. Við vorum búin að miða við að hann yrði mjög lítill og léttur en svo kom hann í heiminn miklu stærri og þyngri en allir bjuggust við, hann tók alla þá næringu sem hann gat, sem er gott. Enn sem komið er hefur allt gengið vel,“ segir Ragnar.

Stuðningur úr öllum áttum 

Fanney byrjaði fljótlega eftir keisaraskurð í geislameðferð og hefur nú farið 13 sinnum í geisla. Hún segir það hafa hjálpað mikið hve umhyggjusamt starfsfólk vökudeildar sé. Ragnar segir leitun að fólki með betra hjartalag.

„Við erum á bólakafi í þessari baráttu, það er erfitt að segja núna hvar þetta stendur, við erum með vindinn í fangið og það er ekki tímabært að líta upp og skoða árangurinn, meðferðin er ekki hálfnuð. Á meðan erum við bjartsýn og alveg uppfull af þakklæti til allra þeirra sem hafa sýnt okkur velvilja og stuðning. Fanney getur skiljanlega ekkert unnið og ég hef þurft að minnka töluvert við mig vinnu. Í kringum svona baráttu er svo ofboðsleg vinna, það er alltaf eitthvað nýtt að takast á við á hverjum degi og við höfum í raun búið á spítalanum í þrjá mánuði. Mamma mín, sem býr fyrir norðan og er í vinnu þar og með fjölskyldu, tók sér leyfi frá vinnu og hefur verið í bænum óslitið frá því við fengum fréttirnar, hefur hjálpað okkur með dóttur okkar og séð um heimilið. Eins hefur mamma Fanneyjar og fjölskylda komið sterk inn.“

Ragnar Snær Njálsson og Fanney Eiríksdóttir.
Ragnar Snær Njálsson og Fanney Eiríksdóttir. Kristinn Magnússon


Fanney og Ragnar segjast hafa vitað fyrir að þau ættu góða að en það hafi þó komið þeim á óvart hvað allir voru reiðubúnir að hjálpa þeim.

„Þá meina ég hreinlega allir og það gerir mig svo stoltan og gefur manni góða tilfinningu, að maður hafi sjálfur gefið gott af sér í gegnum lífið og fái það til baka. Við erum búin að fá þúsundir skilaboða, pósthólfin okkar eru full á hverjum degi, líka frá ókunnugum,“ segir Ragnar og Fanney bætir við að í gær hafi beðið hennar skilaboð frá þriggja barna móður, sem er henni ókunnug, þar sem hún vildi bjóða fram hjálp.

Hressleikarnir eru góðgerðarleikar heilsuræktstöðvarinnar Hress og í ár er það þau Fanney Eiríksdóttir og Ragnar Snær Njálsson sem leikarnir styrkja. Aðgangur að leikunum er 3.000 kr. og rennur óskiptur til söfnunarverkefnisins og ekki þarf að vera korthafi í Hress til að taka þátt. Fyrir þá sem ekki komast á Hressleika og vilja styrkja fjölskylduna er búið að stofna söfnunarreikninginn 0135-05-71304 á kennitölu 540497-2149.

Viðtalið birtist í fullri lengd í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert