Landvarsla í fyrsta skipti á einkalandi

Komið upp úr Brúnavík og horft yfir Breiðuvík.
Komið upp úr Brúnavík og horft yfir Breiðuvík. Ljósmynd/Hörn Heiðarsdóttir

Í sumar stóðu Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri fyrir nýstárlegu verkefni, en þá var í fyrsta skipti haldið úti landvörslu á Víknaslóðum, en það eru víkurnar sunnan og austan við Borgarfjörð eystri, auk Loðmundarfjarðar. Er þetta jafnframt í fyrsta skipti sem haldið er úti landvörslu á landi í einkaeigu hér á landi.

Hörn Halldóru- og Heiðarsdóttir starfaði sem landvörður á svæðinu, en helsta verkefnið var að gera heildstæða úttekt á ástandi svæðisins, hvaða verkefni þyrfti að ráðast í og hver framtíðarsýn svæðisins ætti að vera. Í samtali við mbl.is segir Hörn að með þessu hafi verið horft til þess að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir og passa upp á að farið sé vel með landið þrátt fyrir fjölgun ferðamanna á svæðinu.

„Endi ekki eins og margir vinsælir ferðamannastaðir“

„Við viljum ekki að svæðið endi eins og margir vinsælir ferðamannastaðir þar sem fólk er að bregðast við frekar en að undirbúa svæðið fyrirfram,“ segir Hörn og vísar til þess að víða hafi landeigendur eða stofnanir sem fari með yfirráð svæða ekki brugðist við fyrr en í óefni er komið.

Víknaslóðir hafa lengi verið vinsæll staður göngufólks, enda fallegt útivistarsvæði. Fyrir um 20 árum stikaði Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri nokkrar af gönguleiðunum á svæðinu, en tilgangurinn var að stika gömlu þjóðleiðirnar á milli bæja sem höfðu verið í víkunum. Hófst það verk árið 1996 og var unnið í sjálfboðavinnu heimamanna. Árið 1998 kom Ferðafélag Fljótsdalshéraðs svo að verkefninu með því að byggja fyrsta skálann, en í dag eru þeir þrír á svæðinu; í Húsavík, Breiðuvík og Loðmundarfirði.

Séð yfir Brúnavík. Tóftir gamla bæjarins sjást þarna fyrir miðri …
Séð yfir Brúnavík. Tóftir gamla bæjarins sjást þarna fyrir miðri mynd neðarlega og svo er neyðarskýlið nokkru innar. Ljósmynd/Hörn Heiðarsdóttir

Er að hluta einkaland og að hluta afrétt

Það merkilega við þetta verkefni er að svæðið sem um ræðir er ekki innan þjóðgarðs eða friðlýsts svæðis, heldur er það einkaland eða afrétt. Hörn segir að ferðamálahópurinn og ferðafélagið hafi tekið sig saman og viljað framtíðarsýn og stefnu um svæðið í ljósi fjölgunar ferðafólks á svæðinu. Sjálf hafi hún undanfarin ár unnið sem landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði norðan Vatnajökuls í Krepputungu, eða við Hvannalindir og Kverkfjöll. Hún hafi svo verið ráðin í þetta verkefni nú í sumar og í sex vikur hafi hún gengið um stikaðar gönguleiðir Víknaslóða, en samtals eru um 60 gönguslóðir á svæðinu.

Hörn tók myndir af svæðinu og mat ástandið, ræddi við landeigendur og ferðamenn, auk þess að vinna að nokkrum tilraunaverkefnum með lagfæringar og stýringu á svæðinu. Samtals kallaði þetta á um 160 kílómetra göngu á tímabilinu. „Hugmyndin í ár var fyrst og fremst að fá tilfinningu fyrir þessu, útbúa verkefnalista til að geta hafist handa á næsta ári,“ segir Hörn. Sérstök áhersla var lögð á leiðina frá Borgarfirði yfir í Brúnavík, en það er algengasta gönguleiðin, enda fer fjöldi manns þangað í dagsgöngu, meðan ganga í aðrar víkur krefst venjulega fleiri daga.

Hörn hefur undanfarin ár starfað við landvörslu í Vatnajökulsþjóðgarði norðan …
Hörn hefur undanfarin ár starfað við landvörslu í Vatnajökulsþjóðgarði norðan Vatnajökuls. Ljósmynd/Hörn Heiðarsdóttir

Mest áhersla þarf að fara í að bæta merkingar

„Almennt er ástandið nokkuð gott enn sem komið er, fjöldi ferðamanna er innan þolmarka, en ég legg til að mest áhersla verði á að bæta merkingar, skipta út öllum stikum sem margar hverjar eru veðraðar og búnar að missa lit,“ segir Hörn. Þá þurfi að bæta eða skipta út upphafsmerkingum og mála eða skipta út vegvísum. „Mest áhersla er á að bæta merkingar,“ segir hún. Þetta hafi meðal annars verið helsta athugasemd ferðamanna sem hún ræddi við.

Til viðbótar segir Hörn að einnig þurfi að horfa til þess að færa örfáar leiðir til og hvíla þær tímabundið eða til frambúðar vegna átroðnings. Í einhverjum tilfellum þurfi að færa leiðir sem fari í gegnum mýrarsvæði, eða þá hlaða í þær grjóti eða setja upp göngubrýr.

Mikill hagur fyrir alla, sérstaklega náttúruna

Hörn segir að þetta verkefni sýni að það þurfi ekki einungis opinberir aðilar að sjá um landvernd. „Ég held að þetta sé mjög jákvætt. Það er jákvætt að landvernd einskorðist ekki bara við ríki og sveitarfélög, heldur að fólk og félagssamtök sjái hag í að vernda landið,“ segir hún. Margir landeigendur hafa að hennar sögn verið hræddir við friðlýsingu og mögulega miðstýringu frá suðvesturhorninu sem því gæti fylgt, en með þessu móti er landvarslan gerð á forsendum heimamanna og félaga á svæðinu. „Ég sé mikinn hag í þessu fyrir alla, sérstaklega náttúruna,“ segir hún.

Fjallið Hvítserkur er eitt sterkasta kennileitið á Víknaslóðum. Hér sést …
Fjallið Hvítserkur er eitt sterkasta kennileitið á Víknaslóðum. Hér sést hann frá Húsavík. Ljósmynd/Hörn Heiðarsdóttir

Stefnan með Víknaslóðir er að hennar sögn nú að fara í nauðsynlegar framkvæmdir og viðhald auk þess sem vilji sé til þess að halda áfram með landvörslu þar á komandi árum.

Hörn kynnti niðurstöður úttektar sinnar á fundi á Egilsstöðum og á Borgarfirði eystri í gær og mun á mánudaginn halda kynningu í sal Ferðafélags Íslands. Er kynningin opin öllum áhugasömum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert