Láta til sín taka á Norðurlandaráðsþingi

Forsætisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna eru stödd í Ósló af tilefni …
Forsætisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna eru stödd í Ósló af tilefni Norðurlandaráðsþings sem sett var í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019 verður sérstök áhersla lögð á ungt fólk, sjálfbæra ferðamennsku og hafið með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ísland tekur við formennsku í nefndinni um áramótin, en þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlandanna, eru stödd í Ósló í Noregi af tilefni Norðurlandaráðsþings, sem sett var í dag.

Yfirskrift áætlunar Íslands er Gangvegir góðir, og vísar til beinna og stuttra samskiptaleiða innan Norðurlandanna. „Þannig liggja sannarlega gagnvegir á milli Norðurlandanna, milli Reykjavíkur og Helsinki, Óslóar og Nuuk, Þórshafnar og Stokkhólms, Kaupmannahafnar og Maríuhafnar,“ segir í sameiginlegum inngangi forsætis- og samstarfsráðherra að áætluninni.

Sigurður Ingi fundaði með öðrum norrænum samstarfsráðherrum í morgun, þar sem ákveðið var að halda áfram að breyta og bæta norrænt samstarf.

Ráðherrarnir tóku meðal annars ákvörðun um nýja samstarfsáætlun á sviði aðlögunar, með sérstakri áherslu á börn og ungmenni, fyrir tímabilið 2019 til 2021. Áætlunin hófst með stuttum fyrirvara árið 2016 sem viðbragð við hinum almenna flóttamannavanda og lýkur henni í lok árs. Þá ræddu ráðherrarnir nýjar tillögur um hvernig bæta megi umhverfi nýsköpunar á Norðurlöndunum og hvernig þau geti orðið leiðandi svæði í heiminum fyrir sprotafyrirtæki.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þinginu í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þinginu í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Áður en Norðurlandaráðsþing var sett í dag tók forsætisráðherra þátt í Norhtern Future Forum. Þar koma forsætisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Bretlands saman til skoðanaskipta, en þróun og nýsköpun á sviði heilsutækni og heilbrigðismála var efni fundarins í ár.

Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fundi með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, í gær þar sem meðal annars var rætt um málefni hafsins og Norðurskautsráðið og einnig báru á góma málefni tengd Brexit, Evrópusambandinu og EES-samningnum. 

Tilkynning samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins.

Tilkynning forsætisráðuneytisins.

Fréttabréf Norræns samstarfs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert