Segir Sirrý „fyrirlitlega manneskju“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir pistlahöfund Fréttablaðsins harðlega í færslu sem hún setti á Facebook-síðu sína í morgun.

Sólveig segir Sirrý Hallgrímsdóttur, sem skrifaði bakþanka í blaðið í morgun undir fyrirsögninni „Byltingin étur“ vera „fyrirlitlega manneskju“ sem saki hana um óheiðarleika og glæpaeðli.

Sirrý skrifar í pistli sínum að ótrúlegt sé að fylgjast með verkalýðshreyfingunni. „Munnsöfnuðurinn er þannig að venjulegu fólki svelgist á, ítrekað. Það er eins og nýja forystan ætli alls ekki að láta það spyrjast um sig að hún lúti einhverjum siðalögmálum þreyttrar borgarastéttar. Í byltingu er allt leyfilegt, öllu skal kollvarpað og engin ástæða til að binda sig við úrkynjaða siði eins og almenna kurteisi,“ skrifar hún.

Sirrý bætir því við að svo virðist sem Gunnar Smári Egilsson sé andlegur leiðtogi hreyfingarinnar. Áður hafi hann haft aðgang að sjóðum auðmanna en núna hafi hann fundið nýjan sjóð hjá Eflingu sem sitji á 12 milljörðum sem nýta megi til ýmissa verka.

Sólveig Anna er afar ósátt við skrifin. „Það er ótrúlegt að þurfa að sitja undir uppspuna og deleríngum í fólki með skerta siðferðiskennd, en ég segi aftur: Hér fáum við ótrúlegt tækifæri til að upplifa hvernig borgarastéttin tjúllast þegar að henni er sótt og þegar fólk ákveður að hætta að bugta sig og beygja fyrir mannfjandsamlegum efnahagslögmálum hennar,“ skrifar Sólveig Anna.

„Í alvöru talað: hvernig dirfist þessi kona að reyna að ata mig aur? Hvernig dirfist hún að reyna að hræða fólk sem starfar á íslenskum vinnumarkaði til hlýðni? Hvernig dirfist hún að reyna að láta eins og ég hafi gerst sek um einhvern glæp?“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert