Dæla olíu úr skipinu síðar í dag

Sérfræðingar komust um borð í skipið í morgun.
Sérfræðingar komust um borð í skipið í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirbúningur umsóknar um leyfi til þess að hefja dælingu á olíu úr flutningaskipinu Fjordvik er hafinn. Sé rétt staðið að er ráð gert fyrir því að dæling hefjist seinna í dag.

Þetta staðfestir Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, en það er stofnunin sem kemur til með að fara yfir og samþykkja umsóknina.

Flutningaskipið Fjordvik strandaði við stórgrýttan hafnargarð í Helguvík aðfaranótt laugardags og situr þar fast. Samkvæmt upplýsingum sem komið hafa fram er olían um borð ekki svartolía heldur gasolía.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Það eru hafnaryfirvöld á svæðinu sem hafa umsjón með aðgerðum og í nótt var unnið að byggingu palls til þess að menn kæmust um borð í skipið. Sérfræðingar komust loks um borð í morgun til þess að meta aðstæður.

Aðilar sem koma að aðgerðum hafa fundað reglulega síðan skipið strandaði og hófst síðasti fundur klukkan 12:30 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert