37 prósent áfangastaða þeir sömu

Samtals bjóða flugfélögin upp á flug til 56 áfangastaða.
Samtals bjóða flugfélögin upp á flug til 56 áfangastaða. mbl.is/Hallur

Samkvæmt flugáætlun flugfélaganna Icelandair og WOW air fljúga félögin samtals til 56 borga. Icelandair flýgur til 45 áfangastaða á meðan WOW air býður upp á flug til 35 áfangastaða. Síðarnefnda flugfélagið býður þó upp á 37 lendingarstaði, þar sem flogið er bæði til London Gatwick og Stansted og New York JFK og EWR.

Sömu áfangastaðir eru 21 talsins, eða 37 prósent af heildarfjöldanum, þar á meðal allir sex vinsælustu áfangstaðir Icelandair: New York, Boston, Washington, London, París og Kaupmannahöfn. 

Hér má sjá leiðakerfi flugfélaganna innan Evrópu.
Hér má sjá leiðakerfi flugfélaganna innan Evrópu. Grafík/mbl.is

Vert er þó að taka fram WOW air flýgur ekki til allra áfangastaðanna um þessar mundir, en hægt er að bóka flugferðir fram í tímann. Þetta á til að mynda við um Nýju-Delí, en flug þangað hefst ekki fyrr en í desember. Þá var flugi til Tel Aviv hætt í október og hefst það ekki aftur fyrr en í júní á næsta ári, en jafnframt er vetrarfrí á flugi til San Fransisco, Stokkhólms og Edinborgar og hefst það aftur á vormánuðum. Svo stendur til að hætta flugi til St. Louis í Bandaríkjunum um áramótin.

Greint var frá því í fréttum um miðjan október WOW air hygðist stækka leiðakerfi sitt um 15 prósent á næsta ári. Meðal annars auka tíðni flugferða til stærstu áfangastaða í Bandaríkjunum vegna eftirspurnar Indverja út af flugi til Nýju-Delí sem hefst í desember.

Hér má sjá áfangastaði flugfélaganna í Bandaríkjunum.
Hér má sjá áfangastaði flugfélaganna í Bandaríkjunum. Grafík/mbl.is

Einnig hefur komið fram að Icelandair ætli að kynna nýja útfærslu á leiðakerfinu árið 2019, en þegar Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, sagði starfi sínu lausu í lok ágúst sagðist hann meðal annars vilja axla ábyrgð á mistökum sem gerð voru við uppsetningu á því leiðakerfi sem nú er í gildi. Meðal breytinga sem gerðar voru var að fella út næturflug til Evrópu og morgunflug til Bandaríkjanna, en það orsakaði misvægi á milli framboðs fluga.

Áhugavert verður að sjá hvort og þá hvaða áhrif kaup Icelandair á WOW air munu hafa á leiðakerfi flugfélaganna og framboð á flugferðum, en líkt og áður sagði eru sömu áfangastaðir samtals 21.

mbl.is