Uppstokkun á markaði

Samsett mynd af þotum WOW og Icelandair.
Samsett mynd af þotum WOW og Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Áreiðanleikakönnun mun leiða í ljós hvort Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, fær 1 milljarð eða allt að 3,6 milljarða fyrir fyrirtækið. Gengið var frá samningi um kaup Icelandair Group á öllu hlutafé fyrirtækisins í gærmorgun.

Greitt verður fyrir hlutinn með bréfum í Icelandair Group, en heimildir Morgunblaðsins herma að félagið muni gefa út nýtt hlutafé til að fjármagna kaupin. Þá mun einnig vera í skoðun að ráðast í umfangsmeira hlutafjárútboð til þess að styrkja grunnstoðir félagsins í kjölfar kaupanna.

Þreifingar um möguleg kaup Icelandair á WOW air hófust í byrjun síðustu viku. Skriður komst hins vegar á málið í kjölfar þess að stjórn Icelandair var kölluð saman til fundar eftir lokun markaða sl. föstudag.

Viðræður milli aðila stóðu alla helgina í húsakynnum KPMG í Borgartúni en fyrirtækið er endurskoðandi beggja flugfélaga.

Heimildir Morgunblaðsins herma að á laugardag hafi grundvöllur fyrir samningaviðræðum verið kannaður. Kom afar þröngur hópur fólks frá báðum félögum að því samtali. Þegar ljóst var að grundvöllur til samninga var til staðar var hópurinn víkkaður út á sunnudagsmorgun. Var þá unnið sleitulaust að því að binda lausa enda og róið var öllum árum að því að senda út tilkynningu um viðskiptin fyrir opnun markaðarins í gær. Þá var Fjármálaeftirlitinu og forystumönnum ríkisstjórnarinnar einnig haldið upplýstum um framgang mála.

Ekki náðist að undirrita samninga fyrir opnun markaða í gær. Var þá Kauphöll gert viðvart og kannað hvort loka ætti fyrir viðskipti með bréf Icelandair Group. Ákveðið var að aðhafast ekki fyrr en á 12. tímanum í gær þegar lokað var fyrir viðskipti með félagið í rúma klukkustund. Fram að því fylgdust sérfræðingar Kauphallarinnar náið með framvindu mála. Eftir að opnað var fyrir viðskipti að nýju upp úr kl. 13.00 í gær hækkuðu bréf félagsins á tímabili um meira en 50%. Við lok dags stóð hækkunin í tæpum 40% og markaðsvirðið hafði aukist um 15 milljarða króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert