Bjarg og IKEA í samstarf

Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, og Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA.
Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, og Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA.

Bjarg íbúðafélag og IKEA hafa gert samkomulag um samstarf vegna íbúða Bjargs. Í samkomulaginu felst að Bjarg mun leitast við að nota innréttingar IKEA í íbúðir félagsins. IKEA mun taka þátt í hönnunarferli íbúða og útfæra innréttingarnar með það að markmiði að ná fram hámarksnýtingu rýma. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, segir í fréttatilkynningu: „Bjarg leitar allra leiða til að framleiða hagkvæmar íbúðir og þjónusta leigutaka á sem bestan hátt. Samstarf við IKEA uppfyllir bæði þessi markmið.  

Að gefa leigutökum tækifæri að aðlaga íbúðir að sínum þörfum með aðgengi að lausnum á viðráðanlegu verði er nýjung á leigumarkaði og hlökkum við til samstarfsins við IKEA.”

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir í sömu fréttatilkynningu: „Við hjá IKEA erum stolt af því að fá að taka þátt í þessu krefjandi verkefni með Bjargi. IKEA hefur um árabil verið leiðandi í hönnun á innréttingum þar sem áhersla er lögð á að nýta takmarkað pláss sem best og á sem hagkvæmustu verði.”

Bjarg er hús­næðis­sjálf­seigna­stofn­un, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmark­miða og er ætlað að tryggja tekju­lág­um fjöl­skyld­um á vinnu­markaði aðgengi að hag­kvæmu, ör­uggu og vönduðu íbúðar­hús­næði í lang­tíma­leigu. Um er að ræða leigu­heim­ili að norrænni fyr­ir­mynd sem standa munu til boða þeim félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, skilgreindum í lögum um almennar íbúðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert