Fannst áður en víðtæk leit hófst

Lögreglumenn í Reynisfjöru á fimmta tímanum í dag.
Lögreglumenn í Reynisfjöru á fimmta tímanum í dag. mbl.is/Jónas

Allt tiltækt lið björgunarsveita á Suðurlandi var kallað út eftir að tilkynnt var um ferðamann sem varð viðskila við hóp í Reynisfjöru. Maðurinn fannst, heill á húfi, áður en víðtæk leit að honum hófst.

Ágúst Leó Sigurðsson, svæðisstjóri björgunarsveita, segir að boð hafi komið frá lögreglu um að 25 manna hópur hefði verið í Reynisfjöru og að einn úr hópnum væri týndur. „Þá settum við mikið viðbragð í gang,“ segir Ágúst.

Björgunarsveitir frá Vík voru kallaðar út og að sögn Ágústs átti að kalla þyrluna í loftið til að leita með hitamyndavél. Auk þess voru björgunarsveitir í Vestmannaeyjum boðaðar en þaðan áttu menn að koma á björgunarbát. „Við ætluðum að einblína á ströndina og leita í fjörunni.“

Til þess kom þó ekki en lögregla, eða einhver ferðafélagi mannsins, fann hann áður en víðtæk leit hófst. Einn hópur björgunarsveitarmanna var kominn á vettvang þegar maðurinn skilaði sér. 

„Hann týndist þó í töluverðan tíma og hefur greinilega labbað út frá hópnum. Hann fór alla vega ekki í fjöruna en við óttuðumst það mest,“ segir Ágúst og bætir því við að hann sé ánægður að maðurinn endaði ekki í sjónum við Reynisfjöru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert