Ráðuneytið komið í málið

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitir ýmsa þjónustu við Íslendinga í útlöndum.
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitir ýmsa þjónustu við Íslendinga í útlöndum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mál mannanna tveggja sem eru í haldi lögreglunnar í Ástralíu vegna gruns um fíkniefnasmygl er komið inn á borð borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins sem veitir aðstoð vegna málsins. Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.

Annar mannanna var handtekinn á flugvellinum í Melbourne eftir að fjögur kíló af kókaíni fundust í farangri hans. Rannsókn leiddi lögreglu svo á slóðir annars Íslendings sem var handtekinn á hótelherbergi. Þar hafði lögreglan fundið 2,7 kíló af kókaíni.

Meðal þjónustu sem borgaraþjónustan getur veitt í tilfellum þar sem Íslendingar eru handteknir eða fangelsaðir erlendis er að hafa samskipti við þann handtekna eða fangelsaða og veita aðstoð við að finna lögmenn með sérþekkingu á viðkomandi réttarsviði. Þá getur hún upplýst hinn handtekna eða fangelsaða um grundvallaratriði í réttarkerfi viðkomandi lands, að því er segir á vef utanríkisráðuneytisins.

Íslendingur situr í fangelsi ytra vegna kókaínsmygls

Íslenskur maður var dæmdur í sjö ára fangelsi í Melbourne í Ástralíu árið 2015 vegna fíkniefnasmygls. Hann var handtekinn, ásamt öðrum manni, á flugvelli í Melbourne í ágúst 2013 og voru þeir með um kíló af kókaíni hvor. Fjölmiðlar Sydney Morning Herald greindu frá því á sínum tíma að sá sakfelldi hefði viðurkennt að félagi hans hefði ekki vitað af fíkniefnunum og var þeim síðarnefnda því sleppt eftir að hafa verið í haldi í 567 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert