Íslendingar teknir með 7 kg af kókaíni

Tveir Íslendingar eru í haldi lögreglunnar í Melbourne.
Tveir Íslendingar eru í haldi lögreglunnar í Melbourne. Ljósmynd Australian Border Force

Tveir Íslendingar eru í haldi lögreglunnar í Ástralíu eftir að kókaín fannst í fóðri ferðatösku á flugvellinum í Melbourne. Mennirnir voru með um 7 kíló af kókaíni sem metið er á um 2,5 milljónir Bandaríkjadala, 303 milljónir króna. Greint er frá þessu í frétt Herald Sun en fíkniefnin fundust við leit í farangri og hótelherbergi í kjölfarið.

25 ára gamall maður var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Melbourne eftir að 4 kíló af kókaíni fundust við leit landamæravarða í farangri hans. Samkvæmt fréttinni var ákveðið að leita í farangri hans þegar hann kom með flugi frá Hong Kong. 

Að sögn alríkislögreglunnar var taska hans send í gegnumlýsingu og sást eitthvað óeðlilegt við fóðringu töskunnar. Þegar hún var rifin upp komu fíkniefnin í ljós.

Taska Íslendingsins sem tekinn var á flugvellinum í Melbourne.
Taska Íslendingsins sem tekinn var á flugvellinum í Melbourne. Ljósmynd Australian Border Force

Maðurinn kom fyrir dómara í gær og var hann ákærður fyrir innflutning og vörslu fíkniefna. Hann verður leiddur fyrir dómara að nýju 13. febrúar og á yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur. 

Rannsókn málsins leiddi lögreglu á slóðir annars Íslendings sem var handtekinn á hótelherbergi. Þar fundust 2,7 kg af kókaíni og verður maðurinn, sem er þrítugur að aldri, leiddur fyrir dómara í dag. Ákæran er sú sama. 

Ljósmynd Australian Border Force
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert