Dæmdir fyrir líkamsárás á American Bar

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi hvorn fyrir líkamsárás á karlmann á American Bar í miðbæ Reykjavíkur í apríl 2016. 

Í dómnum kemur fram að mennirnir veittust að manninum inni á barnum og sló annar þeirra hann með krepptum hnefa í andlitið. Þegar dyraverðir höfðu vísað þeim út af staðnum réðust þeir aftur á manninn með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina og fingurbrotnaði, hlaut mar á vinstri kinn og bólgu fyrir aftan vinstra eyra og áverka á hálsi.

Við uppkvaðningu dómsins var meðal annars stuðst við myndband sem tekið var inni á skemmtistaðnum og viðkenndi annar maðurinn að vera sá sem sæist slá brotaþolann en sagði hann að brotaþolinn hefði átt upptök að átökum fyrir utan skemmtistaðinn.

Brotaþoli fór fram á 943.062 krónur í miskabætur en ákærðu var gert að greiða honum 443.062 krónur í miskabætur, með dráttarvöxtum, auk 250.000 króna í málskostnað.

Mennirnir tveir hafa ekki áður hlotið dóm vegna líkamsárásar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert