Frömdu fjölmörg lögbrot undir stýri

Tveir ökumenn voru handteknir í austurhluta Reykjavíkur fyrir margháttuð brot undir stýri. Annar þeirra var stöðvaður um klukkan 18 í hverfi 105 en hann notaði ekki öryggisbelti við akstur og virti ekki merkjagjöf lögreglu um að stöðva bifreiðina. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og hefur aldrei öðlast ökuréttindi.

Hinn var stöðvaður í hverfi 108 um tvö í nótt eftir að hafa ekið yfir gatnamót mót rauðu ljósi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, hafði ekki ökuskírteini sitt meðferðis, er einnig grunaður um vörslu fíkniefna og fleiri lögbrot.

Lögreglan stöðvaði bifreið í Breiðholti um klukkan 18 í gær og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Ökumaður sem lögreglan stöðvaði á Reykjanesbraut um tvö í nótt er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og hafði ekki ökuskírteini sitt meðferðis. Farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og skráningarnúmer því klippt af.

Á fjórða tímanum í nótt var bifreið stöðvuð í Kópavogi og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert