Vísað út af Hverfis fyrir að vera trans

Sæborg Ninja Guðmundsdóttir segir að það virðist vera sem viðtekin …
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir segir að það virðist vera sem viðtekin venja að vísa trans fólki út af Hverfisbarnum. Ljósmynd/Aðsend

Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur var í gærkvöldi ásamt systur sinni og afmælisveislugestum hennar vísað út af Hverfisbarnum fyrir að vera trans. Hún stefnir nú á að leggja fram kæru á hendur Hverfisbarnum vegna málsins.

Þetta og fleira segir hún í samtali við mbl.is, en Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Sæborg segir að systir hennar hafi ákveðið að halda afmælisveislu sína á Hverfisbarnum og þegar hún hafi bókað staðinn hafi ekkert verið minnst á reglur staðarins um klæðaburð inni á staðnum. Hópurinn hafi verið einn inni á staðnum og keypt drykki í um tvo tíma en hafi þá verið tjáð að hann þyrfti að yfirgefa staðinn vegna reglna staðarins um klæðaburð.

„Við reynum þá að fá það á hreint hverjar klæðareglurnar eru og það virðist ganga mjög brösulega. Svo fær ein úr hópnum að heyra, þegar það á endanlega að fara að henda okkur út, að karl í kellingapels fái ekkert að vera hér,“ segir Sæborg og segir að dyravörður staðarins hafi sagt að transkonum hefði áður verið hent út af staðnum af sömu ástæðu.

Það virðist því vera viðmiðið að vísa eigi transkonum út af staðnum segir, Sæborg.

„Hann þorði aldrei að segja það við mig sjálfa. En þetta var það sem hann sagði þegar ég var ekki viðstödd.“

Reiði dyravarðarins jókst

Sæborg segir að hún og hópurinn hennar hafi reynt að koma í veg fyrir að þeim væri hent út, rifist við dyravörðinn og sagt að þessi hegðun væri „transfóbísk“ en reiði dyravarðarins hafi þá stigmagnast. 

„Við eigum svo bara að yfirgefa staðinn þegar við erum búin að klára úr glösunum okkar. Það endar með því að [dyravörðurinn] hrifsar glasið úr höndum einnar konunnar sem stendur upp við mig, konunnar sem tjáði mér hvað hann hafði verið að segja um transfólk, og tæmir úr glasinu hennar á götuna og fer inn. Það eru síðustu afskiptin sem við eigum af Hverfisbarnum,“ segir Sæborg. 

Eins og áður segir stefnir Sæborg nú á að leggja fram kæru vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert