Blómakastarinn pússaður upp til agna

Jón Gnarr fékk verkið að gjöf á meðan hann var …
Jón Gnarr fékk verkið að gjöf á meðan hann var borgarstjóri. AFP

Jón Gnarr hefur leyft aðdáendum sínum á Twitter að fylgjast með örlögum Banksy-listaverksins fræga í dag. Hefur hann meðal annars birt ljósmynd af tómum veggnum í stofunni sinni og af málverkinu úti á stétt og um borð í flutningabíl.

Nú um klukkan 20 í kvöld birti hann svo myndskeið af verkstæði þar sem maður sést pússa verkið af álplötunni með slípirokk.

Jón fékk verkið að gjöf frá Banksy þegar hann gegndi embætti borgarstjóra Reykjavíkur. Listaverkið komst í fréttir í síðustu viku og upp hófust raddir um að verkið hlyti að vera skattskylt og eign borgarinnar. Hlaut Jón nokkra gagnrýni vegna þessa og í langri færslu á Facebook í gær lýsti hann því yfir að hann ætlaði að farga myndinni svo að „hún og allt það sem hún stendur fyrir trufli engan“.

Í dag lét hann verða af þeim áætlunum, en myndskeiðið af Twitter Jóns Gnarr má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert