Enginn náði að stöðva skákmanninn Hilmi

Hilmir hefur farið mikla sigurför á undanförnum mánuðum, en strangar …
Hilmir hefur farið mikla sigurför á undanförnum mánuðum, en strangar stúderingar gerðu hana að veruleika. Mynd/Aðsend

Skákmaðurinn Hilmir Freyr Heimisson sigraði á alþjóðlega ungmennaskákmótinu Uppsala Young Champions í Svíþjóð, sem lauk fyrr í nóvember, en hann hefur rokið upp stigalistann að undanförnu og er nú meðal 20 stigahæstu skákmanna á Íslandi, aðeins 17 ára gamall.

Hann leiddi mótið frá byrjun og var forskotið raunar svo mikið að birt var frétt á síðu mótsins undir fyrirsögninni „Hver mun stöðva Hilmi?“ sem vakti nokkra athygli meðal skákmanna hér á landi. Þar að auki varð hann Norðurlandameistari í Finnlandi í febrúar á þessu ári. Nú er Hilmir búinn að rjúfa 2.400 elo-stigamúrinn, en uppsveifla hans hófst með markmiðasetningu.

„Markmiðið var að verða Fide-meistari, allt annað væri bara plús. Þannig að allt í einu var ég kominn upp í 2.400 elo-stig og ég er mjög ánægður með það. Það sem er mest hvetjandi við þetta er að sjá árangurinn. Þegar aukaæfingin fer að skila sér í árangri þá langar mann bara að stúdera meira og verða enn betri,“ segir Hilmir.

Ljósmynd/Aðsend

Stúderaði hátt í þrjá tíma á dag

Hilmir setti sér markmið í febrúar um að verða Fide-meistari á þessu ári, en í því felst að ná yfir 2.300 elo-stigum. Stigin eru reiknuð eftir því hvernig skákmenn standa sig á skákmótum með tilliti til elo-stiga andstæðinga þeirra. Stigin sveifluðust upp og niður hjá Hilmi, en eftir erfitt gengi á Xtracon-mótinu í Danmörku ákvað hann að gefast ekki upp.

„Eftir það hugsaði ég að ég ætlaði ekki að fara að klúðra þessu markmiði. Það væru nokkrir mánuðir eftir af árinu og því stuttur tími til stefnu. Eftir mótið, sem var búið í september, fór ég heim og stúderaði skák af viti. Stundum í þrjá klukkutíma, stundum lengur, stundum styttra, en alla vega af viti.

Með tímanum rann upp fyrir mér að ég gæti orðið miklu betri, bara því að ég legði mikla vinnu í þetta. Ef maður vill ná árangri þá þarf maður að leggja vinnu í hlutina og ef áhuginn er til staðar er það þeim mun auðveldara,“ segir Hilmir.

Eftir miklar stúderingar tók hann þátt í fjórum mótum í viðbót og lét afrakstur aukaæfinganna ekki á sér standa. Var hann fljótt kominn 100 elo-stigum yfir upphaflegt markmið sitt, með 2.400 stig og Fide-meistaratitill.

Lærði margt af stjúpföðurnum

Hilmir býr ásamt móður sinni og stjúpföður í Danmörku, en stjúpfaðir hans, Henrik Danielsen, er stórmeistari í skák. Henrik hefur veitt Hilmi mikla hvatningu en auk þess á hann nóg af skákbókum sem Hilmir getur sökkt sér í.   

Stjúpfaðir Hilmis, stórmeistarinn Henrik Danielsen er Hilmi mikill innblástur.
Stjúpfaðir Hilmis, stórmeistarinn Henrik Danielsen er Hilmi mikill innblástur. Ljósmynd/Áróra Hrönn

„Við stúderum ekki mikið saman en hann á fullt af skákefni sem ég hef skoðað sjálfur, og það er búið að hjálpa mér mjög mikið. Ég á alltaf í basli með að einbeita mér þegar við stúderum saman. Hann er stjúppabbi minn svo það er erfitt að vera ekki að grínast, heldur taka hlutunum alvarlega þegar við erum saman að þessu.“

Skákin hefur átt hug Hilmis frá unga aldri en það sem heillar hann mest við skákina eru sigrar og félagsskapur. „Það sem er skemmtilegt við skák er þegar maður vinnur einhvern eftir langa skák. Það að sigra annan einstakling í einhverju og vita að maður fékk enga hjálp, heldur var þetta bara einn á móti einum, það er góð tilfinning. Svo eignast maður auðvitað fullt af vinum í þessu,“ segir Hilmir.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert