Íbúar búa sig undir það versta

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorbjörg Gísladóttir tók við starfi sveitarstjóra Mýrdalshrepps í haust. Hún segir íbúa hreppsins taka tilvist Kötlu með stóískri ró. Rýmingaráætlun og allur undirbúningur miðist við verstu hugsanlegu aðstæður. Íbúar hér þekki vel hvernig þeir eigi að bregðast við. Það þurfi samt sem áður að huga að betrumbót þar sem margt nýtt fólk hafi flutt í hreppinn og mikill straumur ferðamanna fari í gegnum Mýrdalshrepp.

„Lögreglstjórinn á Suðurlandi lét gera nýja hermun á hlaupi úr Múlakvísl og þar kom í ljós að við verstu aðstæður myndi núverandi varnargarður ekki halda og flóð af völdum Kötlugoss gæti náð til Víkur. Við erum ekki að tala um vatnsflóð heldur aur- og jökulflóð. Ef garðurinn yrði betrumbættur þá værum við með algjörlega nýtt landslag, nýtt byggingarland og gætum byggt fyrirhugaða björgunarmiðstöð á láglendi í stað þess að byggja uppi í brekku með tilheyrandi kostnaði,“ segir Þorbjörg og bætir við að ekki þyrfti að rýma Vík með umbótum á varnargarðinum. Hún segir að Vegagerðin áætli að kostnaðurinn sé 80 til 100 milljónir en tjónið sem gæti orðið ef flóð úr Múlakvísl næði til Víkur gæti hlaupið á 6 til 13 milljörðum.

Verkfræðistofan Vatnaskil útbjó nýtt reiknilíkan sem metur hættu á flóði …
Verkfræðistofan Vatnaskil útbjó nýtt reiknilíkan sem metur hættu á flóði í Múlakvísl í kjölfar jökulhlaups vegna eldgoss í Kötlu þar sem tekið er tillit til hækkunar lands vegna útfellingar sets. Kort/mbl.is

Mikil fólksfjölgun

Þorbjörg segir að gríðarleg fólksfjölgun hafi átt sér stað í Mýrdalshreppi.

„Um áramót vorum við 630 en nú nærri 700. Ég held að þetta sé mesta fólksfjölgun á landinu. Ferðaþjónustan dregur til sín fólk. En mest fáum við fólk á aldrinum 20 til 40 ára sem stoppar flest ekki lengi. Okkur vantar fjölskyldufólk og börn en húsnæðisskortur er hamlandi þrátt fyrir að 30 nýjar íbúðir hafi verið teknar í notkun á þessu ári,“ segir Þorbjörg sem hefur litlar áhyggjur af návíginu við Kötlu.

„Við erum vel undirbúin. Fjöldi vísindamanna, lögreglan og almannavarnanefnd fylgjast vel með og taka stöðuna reglulega. Það veitir óneitanlega öryggiskennd.“

Þorbjörg segir mannlífið í Vík gott og líf og fjör á staðnum. Það hafi komið á óvart þegar þau komu til Víkur að komast ekki inn á veitingastað vegna þess að allt var fullt þrátt fyrir að 16 veitingastaðir séu í hreppnum. „Nýju íbúarnir eru alls staðar úr heiminum. Við þurfum að kortleggja þekkingu þeirra og hæfileika.“

Vík í Mýrdal liggur í fallegu bæjarstæði með útsýni til …
Vík í Mýrdal liggur í fallegu bæjarstæði með útsýni til Reynisdranga. Íbúar láta eldfjallið Kötlu ekki ræna sig svefni en eru tilbúnir ef hún vaknar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorrablótið eitt eftir

„Það þarf að bæta innviði samfélagsins með fjölgun íbúa og straumi ferðamanna,“ segir Sæmunda Ósk Fjeldsted og tekur sem dæmi vöntun á apóteki sem hún hefur fulla trú á að komi. Sæmunda flutti til Víkur fyrir 15 árum þegar 300 manns bjuggu í hreppnum. Hún segir mikla breytingu á mannlífinu. Áherslan sé á nýja hluti og sem dæmi sé þorrablótið í félagsheimilinu Leikskálum eina ballið sem eftir sé af þeim gömlu.

Katla truflar Sæmundu lítið en hún segir meira hafa verið talað um Kötlugos meðal íbúanna fyrir 20 árum og Mýrdalssandi hafi oft verið lokað ef mælingar sýndu hættu á gosi. Með bætri mælingum hafi lokunum verið hætt. Sæmunda segir gott upplýsingaflæði frá almannavörnum til íbúa hjálpa til en hún hafi eins og aðrir áhyggjur af ferðamönnum og nýjum íbúum.

„Ég sef róleg yfir gosi í Kötlu en líst illa á hugsanlegt öskufall. Við fengum alveg upp í kok í Eyjafjallagosinu af öskunni og viðbjóðnum sem fygldi henni,“ segir Sæmunda.

Áhyggjur af ferðamönnunum

Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri rekur nýtt hótel, Kríuhótel, Icelandair hótel, auk veitingastaða í samstarfi við aðra. Elías er fæddur í Pétursey þar sem hann ólst upp við sveitastörf. Hann flutti aftur í Mýrdalinn að loknu námi og segir að Katla trufli sig ekki dagsdaglega. Hann hafi litlar áhyggjur af hlaupinu en meiri áhyggjur af öskufalli.

Elías segist engar áhyggjur hafa af íbúum í Mýrdal þar sem rýmingaráætlanir séu öllum kunnar nema helst nýjum íbúum, en hann finni til ábyrgðar gagnvart ferðamönnum á svæðinu. Elías segir að allt að 10.000 manns fari í gegnum Vík á góðum degi. Það komi honum á óvart hvað ferðamenn viti mikið um Kötlu en auðvitað séu einhverjir sem viti ekkert um hana og sumum finnist það spennandi að gista við Kötlurætur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »