Kólnandi veður

Kort/Veðurstofa Íslands

Í dag og í raun fram yfir helgi er útlit fyrir frekar hæga austlæga átt og víða bjart veður en skýjað með lítils háttar vætu suðaustan og sunnan til. Eftir hlýindi síðustu daga fer nú kólnandi og hitinn mun líklega ekki fara langt upp fyrir frostmark, nema þá með suður- og vesturströndinni þar sem útlit er fyrir 5 eða 6 stiga hita þegar best lætur, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, að mestu skýjað og úrkomulítið. Léttir víða til þegar kemur fram á daginn, en skýjað og stöku skúrir með S- og SA-ströndinni. Hiti um og undir frostmarki, en upp í 5 stig S- og V-lands. Svipað veður á morgun.

Á föstudag, laugardag og sunnudag:
Hæg breytileg átt og víða léttskýjað, en austan 5-10 m/s allra syðst og stöku skúrir með S-ströndinni. Frost 3 til 8 stig í innsveitum fyrir norðan, annars um frostmark og allt að 6 stiga hiti með S- og V-ströndinni. 

Á mánudag og þriðjudag:
Áframhaldandi austlæg átt og skúrir S-lands, slydduél austast, en annars lengst af þurrt. Hiti 0 til 6 stig S-til, annars um og undir frostmarki. 

Á miðvikudag:
Vaxandi norðaustlæg átt og skúrir eða él. Hiti nálægt frostmarki.

Færð og aðstæður

Suðvesturland: Hálka er á Mosfellsheiði og á Kjósarskarði. 

Vesturland: Hálka er á Holtavörðuheiði og á Svínadal en hálkublettir m.a. á Bröttubrekku og á Fróðárheiði.

Vestfirðir: Hálka er á Klettshálsi, Hálfdán og Mikladal en víða hálkublettir. 

Norðurland: Hálka er víða í Skagafirði en annars eru víða hálkublettir.  

Norðausturland: Hálka eða hálkublettir víðast hvar.   

Austurland: Hálka er á Jökuldal, á Fjarðarheiði og á Öxi.

Suðausturland: Hálkublettir eru nú allvíða á Suðausturlandi.

Suðurland: Hálka eða hálkublettir eru umhverfis Þingvallavatn, á Lyngdalsheiði og á nokkrum öðrum leiðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert