Kokkalandsliðið setur stefnuna hátt

Björn Bragi Bragason í Lúxemborg.
Björn Bragi Bragason í Lúxemborg. Ljósmynd/Kokkalandsliðið

„Stefnan er sett á gull,“ segir Björn Bragi Bragason, forseti Klúbbs matreiðslumanna. Íslenska kokka­landsliðið kepp­ir á heims­meist­ara­mót­inu í Lúx­em­borg um helg­ina og er þessa stundina að undirbúa þriggja rétta máltíð sem verður borin á borð fyrir gesti og dómara klukkan 18:00.

„Nú er þetta í höndunum á krökkunum sem eru búin að vera ljóndugleg í öllum undirbúningnum,“ segir Björn og bætir við að það sé mikil tilhlökkun og spenna í hópnum.

Dómarar fylgjast með kokkunum að störfum allan tímann og fyrir utan máltíðina sjálfa dæma þeir vinnubrögð, hreinlæti, skipulag og allt sem hægt er að finna, eins og Björn orðar það.

Ef það gleymist að setja lok á einn dall eða það gleymist að flokka ruslið þá er mínus fyrir það. Einhverjir fjórir diskar af 110 fara til dómara. Við vitum ekkert hverjir það verða og þeir þurfa allir að vera pottþéttir,“ segir Björn. Íslenska liðið býður upp á þorsk í forrétt, lambakjöt í aðalrétt og ísey skyr og súkkulaði í eftirrétt.

Landsliðsfólk undirbýr máltíðina af kappi.
Landsliðsfólk undirbýr máltíðina af kappi. Ljósmynd/Kokkalandsliðið

Landsliðið fylgir eftir góðum árangri frá síðasta móti en þá hafnaði það í fimmta sæti. Björn segir markmiðið núna að ná í gull en fleiri en eitt lið geta samtímis krækt í gullið.

„Mest er hægt að fá 100 stig og ef lið fær 91 til 100 stig þá fær það gull. Fleiri en ein þjóð geta því fengið gull og svo getur það líka gerst að enginn fái gull. Fyrir 81 til 90 stig fæst silfur og svo þannig koll af kolli,“ útskýrir Björn.

Þegar allar þjóðir hafa lokið keppni ræðst niðurröðun þeirra og því er hægt að hafna í fimmta sæti en samt fá gull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert