Krefjast áfram varðhalds í hnífstungumáli

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Norðurlandi eystra mun fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni sem grunaður er um alvarlega hnífstunguárás við útibú Arion banka á Geislagötu á Akureyri í byrjun mánaðarins. Maðurinn hafði áður verið úrskurðaður í gæsluvarðhald sem rennur út föstudaginn 30. nóvember.

Bergur Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Akureyri, segir rannsókn málsins vera á síðustu metrunum og verið sé að undirbúa það að hægt sé að gefa út ákæru. Blóðrannsóknir og fleira taki alltaf sinn tíma, en málið liggi nokkuð ljóst fyrir. Árásin hefur verið rannsökuð sem tilraun til manndráps.

Vitni urðu að árás­inni á Geislagötu, auk þess sem lög­regl­an hef­ur und­ir hönd­um gögn úr eft­ir­lits­mynda­vél­um sem sögð eru gefa góða mynd af at­b­urðarás­inni. Sá grunaði hafði yf­ir­gefið vett­vang þegar lög­regla mætti á staðinn, en hann var hand­tek­inn skömmu síðar. Blóðugur hníf­ur fannst við hús­leit lög­reglu á dval­arstað manns­ins.

Sá sem varð fyr­ir árás­inni var flutt­ur á Sjúkra­hús Ak­ur­eyr­ar þar sem hann gekkst und­ir aðgerð, en hann var ekki í lífshættu. Bergur segir það heppni að ekki fór verr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert