Breytingar á þjónustu við hjartasjúklinga á Landspítala

Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi.
Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjartasjúkdómar eru algengir á Vesturlöndum og eðli málsins samkvæmt hefur þjónusta við hjartasjúklinga verið mjög umfangsmikil á Landspítala (LSH), stærsta sjúkrahúsi landsins. Í dag, 1. desember, verða hins vegar talsverðar breytingar á þeirri starfsemi á LSH. Bráðaþjónusta hjartasjúklinga mun færast á Bráðamóttökuna í Fossvogi og mun hjartadeildin styðja vel við þessar breytingar og jafnframt nota tækifærið til efla ýmsa þætti þjónustunnar við þennan stóra sjúklingahóp. Þetta kemur fram í grein Karls Andersen en hann er yfirlæknir Hjartagáttar og Davíðs O. Arnar sem er yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, í Morgunblaðinu í dag.

Karl Andersen hjartalæknir er yfirlæknir hjartadeildar.
Karl Andersen hjartalæknir er yfirlæknir hjartadeildar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allri bráðaþjónustu við hjartasjúklinga hefur undanfarin átta ár verið sinnt á Hjartagáttinni við Hringbraut þó meginbráðamóttaka sjúkrahússins hafi á þeim tíma verið starfrækt í Fossvogi. Helstu rökin á bak við þetta hafa verið þau að það sé mikill kostur að hafa bráðamóttöku hjartasjúklinga á sama stað og lykilþjónusta sérgreinarinnar er, ekki síst hjartaþræðingastofurnar. Þungamiðja bráðameðferðar við kransæðastíflu er hjartaþræðing til greiningar á vandanum og síðan opnun á lokaðri kransæð með kransæðavíkkun og stoðnetsísetningu í sömu aðgerð. Það skiptir sköpum fyrir árangurinn að tími milli fyrstu einkenna kransæðastíflu, sem er yfirleitt brjóstverkur, og kransæðaopnunar sé sem allra stystur og því hefur það þótt ótvíræður kostur að fyrsta greining og meðferð geti farið fram á sama stað. Árangur við meðferð bráðrar kransæðastíflu hefur verið góður hérlendis og mun betri eftir að hafin var bráð hjartaþræðingaþjónusta allan sólarhringinn, alla daga ársins. Auk bráðaþjónustu hefur Hjartagátt sinnt dagdeildarþjónustu og göngudeildarþjónustu við hjartasjúklinga. Hjartagáttin mun áfram verða starfrækt en með talsverðum áherslubreytingum eins og við komum nánar að síðar.

Davíð O. Arnar er yfirlæknir hjartadeildar Landspítalans.
Davíð O. Arnar er yfirlæknir hjartadeildar Landspítalans.

Meginástæðan fyrir þessum breytingum núna er skortur á hjúkrunarfræðingum á Hjartagáttinni. Talsverð undirmönnun hefur verið hjá hjúkrunarfræðingum þar um allnokkurt skeið og nú er svo komið að við getum ekki lengur haldið úti fullri bráðaþjónustu við þennan sjúklingahóp. Öll bráðaþjónusta við hjartveika flyst því að á Bráðamóttökuna í Fossvogi. Hjartadeildin mun auðvitað styðja mjög vel við Bráðamóttökuna í þessu verkefni og tryggja að aðgengi að margþættri þjónustu hjartalækninga verði áfram gott.

Það er okkur kappsmál að halda þeim góða árangri sem hefur náðst í meðferð bráðrar kransæðastíflu. Til að reyna að halda tímanum frá greiningu bráðrar kransæðastíflu þar til kransæðaþræðing er gerð í lágmarki munum við nýta okkur fjarskiptatækni til hins ýtrasta. Þegar sjúkrabíll er kallaður til vegna einstaklings með brjóstverk verður tekið hjartalínurit strax í heimahúsi og það sent áfram til greiningar á LSH. Ef það sýnir óyggjandi merki um bráða kransæðastíflu verður farið með sjúklinginn beint á Hringbraut svo að tíminn fram að hjartaþræðingu lengist ekki að óþörfu. Þá hefur verið skerpt á verkferlum þannig að sem minnstar tafir verði við flutning á sjúklingum með bráða kransæðastíflu frá Bráðamóttökunni í Fossvogi í hjartaþræðingu á Hringbraut.

Eins og fyrr segir munum við efla ýmsa aðra þætti þjónustunnar við hjartasjúklinga. Þar ber hæst að það verða fleiri legurými opnuð á hjartadeildinni, dagdeild Hjartagáttar verður stækkuð og starfsemi þar aukin, göngudeildarþjónusta stórefld og átak gert í því að stytta biðlista, ekki síst í brennsluaðgerðir vegna hjartsláttartruflana.

Legurýmum á hjartadeildinni verður fjölgað úr 28 í 34. Þetta mun væntanlega greiða fyrir því að veikustu hjartasjúklingarnir sem koma á Bráðamóttökuna komist sem fyrst í sérhæfða meðferð. Jafnframt verður ráðist í verulegar endurbætur á húsnæði legudeildarinnar til að bæta aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur.

Fjölgun dagdeildarplássa mun auðvelda okkur að taka sjúklinga inn af biðlistum í ýmsar ferlirannsóknir og inngrip. Til þeirra teljast meðal annars hjartaþræðingar, brennsluaðgerðir vegna gáttatifs og annarra hjartsláttartruflana og gangráðsísetningar. Það hefur verið verulega aukin ásókn í brennsluaðgerðir vegna gáttatifs og annarra hjartsláttartruflana undanfarin ár. Biðlistar í þessar aðgerðir hafa því lengst verulega og eru að okkar mati orðnir óhóflega langir. Fjölgun dagdeildarplássa mun því nýtast okkur vel, í bland við aðrar breytingar, til að takast á við það stóra og mikilvæga verkefni að stytta biðlistana í brennsluaðgerðir. Þá mun aukið húsnæði dagdeildarinnar gefa okkur betra svigrúm til að sinna betur rannsóknum á kransæðum svo sem áreynsluprófum og áreynsluómun auk rafvendinga vegna hjartsláttartruflana.

Þá hyggjumst við auka aðgengi að göngudeildarþjónstu og auka breiddina hvað varðar þverfaglegar göngudeildir innan hjartalækninga. Opnuð verður sérstök flýtimóttaka þar sem hugmyndin er að læknar Bráðamóttöku geti vísað sjúklingum til frekara mats hjartalæknis. Sömuleiðis eru áform um að heilsugæslan geti, þegar fram í sækir, vísað til okkar erindum sem væri meira viðeigandi að leysa á göngudeild heldur en að vísa á bráðamóttöku. Þá höfum við í hyggju að fjölga þverfaglegum göngudeildum sem henta mjög vel til að takast á við flókin langvinn hjartavandamál sem krefjast aðkomu margra starfstétta. Við höfum þegar afar góða reynslu af göngudeild með þessu sniði við eftirfylgd hjartabilaðra.

Það verða því umtalverðar breytingar á þjónustunni við hjartasjúklinga á LSH í upphafi desember. Mikilvægt er að allir taki höndum saman um að bráðaþjónustan, sem nú flyst í Fossvog, verði áfram öflug og að góðum árangri í meðferð bráðrar kransæðustíflu verði viðhaldið. Á sama tíma gefst tækifæri til að grípa til ýmissa aðgerða sem við teljum að geti bætt þjónustuna við þann stóra hóp sjúklinga sem til okkar leitar vegna hjartasjúkdóms.“

Landspítalinn Fossvogi.
Landspítalinn Fossvogi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka