Á eftir minna en maraþon

Einar er enn í góðu standi niðri í Crossfit Reykjavík.
Einar er enn í góðu standi niðri í Crossfit Reykjavík. Ljósmynd/Smári Þrastarson

Einar Hansberg á nú eftir um 35 kílómetra af 500 kílómetra löngum róðri sem hann hóf síðdegis á föstudag. Að sögn Heimis Þórs Árnasonar, bróður kappans, er Einar í góðu standi og kominn svolítill galsi í hann.

„Hann lítur rosalega vel út, það hafa allir orð á því að hann líti betur út en hann gerði snemma á laugardagsmorgninum. Það er galsi í honum, hann keyrði púlsinn á mér upp núna fyrir stuttu. Við erum alltaf passa upp á hraðann hjá honum, að hann fari ekki að ofanda. Hann var með hljóðeinangrandi heyrnartól og vildi fá frið í smástund, svo ég sat bara við hliðina á honum og var í símanum.“

Tókst að hræða bróður sinn

„Svo allt í einu tók ég eftir því hvað hann var farinn að fara hratt, lít á hann og á skjáinn og hraðinn var kominn svolítið hátt upp. Ég ætlaði að reyna að stoppa hann en hann gaf mér bara skrýtið augnaráð. Þá varð ég eitthvað smeykur, en hann fór svo bara að skellihlæja. Þessir fimm kílómetrar voru síðan bara teknir í hláturskasti,“ útskýrir Heimir.

Hann segir það lygilegt hversu vel Einari líður. Hann hefur verið að taka fimm kílómetra í einu, en nú þegar hann sér fyrir endann á róðrinum hefur hann tekið upp á því að lengja vegalengdirnar á milli hvílda. Með þessu áframhaldi ætti hann að ná að klára upp úr klukkan 21.

Kristín Sif ætlar að róa síðustu 10 kílómetrana með Einari.
Kristín Sif ætlar að róa síðustu 10 kílómetrana með Einari. Ljósmynd/Smári Þrastarson

Snemma í gærkvöldi var ákvörðun tekin um að einblína á aðalmarkmiðið, að klára 500 kílómetrana, og hætta að hafa áhyggjur af tímarammanum, sem var farinn að hafa mjög neikvæð áhrif á Einar. Tímamarkmiðið hafi verið ákveðinn eftir á, enda þurfi Crossfit-iðkendur alltaf að hafa tímaramma. „Eins og hitt hafi ekki verið nógu krefjandi,“ segir Heimir léttur í bragði.

Flestir að taka sinn lengsta róður

Róðrarvélarnar í Crossfit Reykjavík eru þéttsetnar og segir Heimir fólk bíða í röðum eftir að fá að róa með Einari. Fólk hafi komið víða að af landinu, svo sem frá Stykkishólmi og Vestmannaeyjum, til að sýna stuðning.

„Flestir sem koma hingað eru að taka sinn lengsta róður,“ segir Heimir. „Stærstur hluti þeirra sem kemur er að taka hálfmaraþon eða maraþon, og hafa kannski mest tekið tvo, þrjá kílómetra áður. Það segja allir að þetta sé miklu minna mál en þeir héldu. Róður er góður.“

Róðrarvélarnar í kring um Einar eru þéttsetnar.
Róðrarvélarnar í kring um Einar eru þéttsetnar. Ljósmynd/Smári Þrastarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert