Á að jafna aðstöðumun til tónlistarnáms

Undirritunin fór fram í Söngskólanum í Reykjavík í morgun. Frá …
Undirritunin fór fram í Söngskólanum í Reykjavík í morgun. Frá vinstri: Bjarni Benediktsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Karl Björnsson. Ljósmynd/Aðsend

Samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna um stuðning við tónlistarnám er ætlað að jafna aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi og festa fjármögnun námsins í betri sessi.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirrituðu samkomulagið af hálfu ríkisins og Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Karl Björnsson framkvæmdastjóri fyrir hönd sveitarfélaganna, að því er segir í tilkynningu.

Fram kemur, að samkomulagið byggi á gildandi samkomulagi frá 2016. Grunnfjárhæð framlags ríkisins er 545 milljónir kr. á ársgrundvelli sem greiðist til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem annast úthlutanir framlaganna. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir verkefni frá ríki sem nema 230 milljónum kr. á ári og sjá til þess að fram­lag renni til kennslu þeirra nem­enda sem inn­ritaðir eru í viður­kennda tón­list­ar­skóla án til­lits til bú­setu. Samkomulagið snertir 33 viðurkennda tónlistarskóla víða um land en þar stunda nú um 600 nemendur nám á framhaldsstigi. Gildistími samkomulagsins er til ársloka 2021, að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Margir tónlistarskólar bjuggu við viðvarandi rekstrarvanda á árunum 2014-2016. Um sama leyti var unnið að hugmyndum um nýjan framhaldsskóla sem seinna varð Menntaskóli í tónlist. Skólinn hóf starfsemi árið 2017 með þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem fékk til þess fjárheimild á fjárlögum og þeir u.þ.b. 200 nemendur sem stunda nám á framhaldsstigi í þeim skóla falla utan samkomulags þess á milli ríkis og sveitarfélaga.

Í ljósi þess að fækkað hefur í hópnum sem fellur undir samkomulagið og tryggt er að það taki almennum verðlagsuppfærslum fjárlaga er grundvöllur tónlistarfræðslu á framhaldstigi nú betur tryggður en áður,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert