Hringveginum lokað vegna óveðurs

Kort/Veðurstofa Íslands

Búast má við austan- og norðaustanhvassviðri eða -stormi í dag og einhverjum samgöngutruflunum. Veðurstofan hvetur fólk til þess að fylgjast vel með fréttum af færð og veðri. Veginum undir Eyjafjöllum hefur verið lokað vegna óveðurs, það er frá Hvolsvelli að Vík. Eins verður veginum væntanlega lokað frá Skeiðarársandi að Jökulsárlóni.

Hvassast verður við suður- og suðausturströndina. Búast má við talsverðri rigningu samhliða vindinum á Suðausturlandi, rigningu eða slyddu á Austfjörðum, snjókomu og skafrenningi norðaustan til en úrkomulítið annars staðar, einkum á sunnanverðum Vestfjörðum og á Vesturlandi. 

Dregur ákveðið úr vindi og úrkomu um landið sunnanvert í kvöld en áfram hvasst á norðanverðu landinu á morgun, einna hvassast á Vestfjörðum. Slydda eða snjókoma á köflum, einkum við ströndina, en lengst af þurrt syðra. Hiti víða 0 til 5 stig en vægt frost til landsins fyrir norðan og að 8 stigum allra syðst, segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

„Spáð er austanstormi eða -roki (18-25 m/s, staðbundið jafnvel 28 m/s) á sunnanverðu landinu í dag, hvassast undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum. Ökumenn fari varlega, einkum ef ökutæki eru viðkvæm fyrir vindum. Lægir mikið S-til í kvöld, en áfram hvasst fyrir norðan, einkum á Vestfjörðum,“ segir í athugasemd á vef Veðurstofunnar en gul viðvörun er í gildi á Suður- og Suðausturlandi.

Veðurspá fyrir næstu daga

Vaxandi austanátt, 15 til 25 m/s undir hádegi, hvassast syðst. Talsverð rigning SA-til, rigning eða slydda A-ast og snjókoma NA-lands, annars úrkomulítið. Dregur talsvert úr vindi og úrkomu á S-verðu landinu í kvöld. Hiti yfirleitt 1 til 6 stig, en vægt frost í innsveitum fyrir norðan.
Dregur úr vindi á morgun, norðaustan 10-18 síðdegis, en mun hægari S-til. Slydda eða snjókoma á köflum fyrir norðan, en lengst af þurrt syðra. Hiti 0 til 5 stig, en víða vægt frost til landsins.

Á föstudag:

Norðaustan 10-18 m/s, hvassast NV-til. Slydda eða snjókoma um landið norðanvert, en skýjað með köflum og yfirleitt þurrt syðra. Hiti víða 0 til 5 stig, en vægt frost inn til landsins. 

Á laugardag:
Austlæg átt, 8-15 m/s, hvassast syðst. Dálítil él á N-verðu landinu, en slydda eða rigning með köflum syðra fram eftir degi, en lægir og léttir til um kvöldið. Kólnandi veður. 

Á sunnudag:
Austlæg eða breytileg átt, yfirleitt hæg. Bjartviðri og kalt, en skýjað V-lands og líkur á snjókomu þar um kvöldið. Frost víða 3 til 10 stig, en frostlaust við S-ströndina. 

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með rigningu S- og V-lands og hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert