18 mánuðir fyrir að bíta bút af tungu eiginmanns

Landsréttur
Landsréttur mbl.is/Hjörtur

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir ástralskri konu sem hefur verið búsett hér á landi í nokkurn tíma fyrir stórfellt ofbeldisbrot í nánu sambandi, en hún beit 2,5 sentímetra bút af tungu eiginmanns síns í nóvember í fyrra. Þá var konan einnig fundin sek um árás á aðra konu, en árásarnir áttu sér stað á heimili hjónanna eftir að þau höfðu verið úti að skemmta sér og boðið heim með sér Bandaríkjamanni og konunni sem einnig varð fyrir árásinni.

Konan var dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brot sín, þar af 15 mánuði skilorðsbundna. Einn dómari við Landsrétt skilaði þó sératkvæði og vildi að allur dómurinn væri óskilorðsbundinn vegna alvarlegra afleiðinga brotsins. Hún hafði áður hlotið 12 mánaða dóm, þar af 9 skilorðsbundna.

Þá var henni gert að greiða eiginmanni sínum 1,8 milljón, en í héraðsdómi hafði bótagreiðslan hljóðað upp á 1,2 milljónir. Þá var henni gert að greiða hinni konunni 300 þúsund krónur, en í héraðsdómi hafði sú upphæð verið rúmlega 400 þúsund.

Samkvæmt dóminum hittu hjónin Bandaríkjamanninn og konuna eftir að hafa verið úti að skemmta sér. Buðu þau fólkinu að koma heim með sér. Fram kemur að fólkið hafi verið í „opnu sambandi“ og að maðurinn hafi byrjað að kyssa hina konuna. Í framhaldinu hafi eiginkonan farið að kyssa Bandaríkjamanninn, en eiginmaður hennar hafi þá brugðist reiður við og í framhladinu hófst mikið rifrildi.

Henti eiginmaðurinn Bandaríkjamanninum úr íbúðinni. Eiginkonan réðst hins vegar að hinni konunni, sem var sameiginleg vinkona hjónanna, reif í hár hennar og beit í fingur hennar.

Deilt er um atvik í framhaldinu, en eiginkonan sagði manninn hafa reynt að hamla sér för úr húsinu meðan hann segist verið að reyna að róa hana eftir að hafa ráðist á vinkonuna. Í framhaldinu hafi hann kysst hana og þá hafi hún bitið bútinn af tungunni. Afleiðingar þess að hann missti bút úr tungunni er meðal annars að hann talar öðruvísi.

Landsréttur þyngdi sem fyrr segir dóm héraðsdóms, en í dóminum kemur fram að ljóst sé að konan viðurkenni brot sitt. Telur dómurinn að ekki verði fallist á með henni að um neyðarvörn hafi verið að ærða og er hún því sakfelld.

mbl.is