Bára óttast ekki málsókn

Bára Halldórsdóttir.
Bára Halldórsdóttir. Skjáskot af Ruv.is

Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samræður sex þingmanna á barnum Klaustri í miðbæ Reykjavíkur í síðasta mánuði, segist ekki óttast það ef einhver þeirra tæki ákvörðun um að höfða mál gegn henni. Þetta hefur Ríkisútvarpið eftir Báru en lögmenn sem útvarpið ræddi við telja að hún hafi opnað á slíkt með því að koma fram undir nafni.

„Ég hef ekki áhyggjur af því. Það getur vel verið að það gerist að ég lendi í einhverjum málaferlum. Ef það gerist þá gerist það bara. Ég held að ég sitji stolt með það á minni sakaskrá ef ég yrði dæmd fyrir þetta,“ er haft eftir Báru á vef Ríkisútvarpsins. Í kvöldfréttum útvarpsins sagðist hún vera með hreina samvisku vegna þess sem hún hefði gert.

Bára hefur sagt að hún hafi blöskrað tal þingmannanna og því ákveðið að taka samtalið upp. Hún segir við Ríkisútvarpið að hún hafi ekki vitað í fyrstu hvað hún ætti að gera við upptökuna en síðan ákveðið að senda hana á fjölmiðla. Hún hafi hins vegar ekki búist við þeim afleiðingum sem málið ætti eftir að hafa. Hins vegar hafi hún rétt að taka talið upp.

Haft er eftir Halldóru Þorsteinsdóttur, lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingi í fjölmiðlarétti, á vef Ríkisútvarpsins að grundvallarreglan sé sú að bannað sé að taka upp samtöl annarra án þeirra vitundar. Sérstakar aðstæður gætu þó leitt til þess að það væri talið þjóna almannahagsmunum að upptökur sem þessar væru birtar í fjölmiðlum. 

Heimildarmenn fjölmiðla njóti almennt verndar en Bára hafi fyrirgert slíkum rétti með því að stíga fram undir nafni. Við slíkar aðstæður geti fjölmiðlarnir ekki lengur verndað heimildarmenn sína. Málið hefur verið tekið til skoðunar hjá Persónuvernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert