Rauði krossinn í samstarf við Jafnréttisháskólann

Rauði krossinn veitir fólki í neyð aðstoð víða um heim. …
Rauði krossinn veitir fólki í neyð aðstoð víða um heim. Þessi mynd er frá Sýrlandi en á fáum stöðum í heiminum er neyðin jafn mikil og þar. AFP

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSþ) og Rauði krossinn á Íslandi hafa skrifað undir samstarfssamning sem felur í sér viljayfirlýsingu um samstarf með áherslu á kynja- og jafnréttismál, auk þess sem skipst verði á sérfræðiþekkingu í mannúðar- og þróunarstarfi hérlendis og erlendis, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Við hjá Rauða krossinum erum þess fullviss að markvisst samstarf við Jafnréttisskólann eigi eftir að efla  verkefni okkar. Það er mikilvægt að hafa aðgang að þeim mikla þekkingarbrunni sem Jafnréttisskólinn hefur yfir að búa og vonum að ávinningurinn verði gagnkvæmur,“ er haft eftir Atla Viðar Thorstensen, sviðsstjóra hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins. 

Hefur Rauði krossinn á Íslandi á undanförnum árum lagt aukna áherslu á valdeflingu kvenna og stúlkna í alþjóðlegum verkefnum sínum.

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur þá á undanförnum árum tekið á móti yfir 20 erlendum nemendum á ári í 30 eininga diplómanám í alþjóðlegum jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Námið er ætlað sérfræðingum frá þróunarlöndum og átakasvæðum og lögð er áhersla á mótun verkefna og rannsókna sem taka á kynjajafnrétti og margþættri mismunun í heimalöndum þeirra. Skólinn hefur útskrifað 109 sérfræðinga frá stofnun skólans (2009) og þar af koma flestir frá Palestínu og Malaví þar sem Rauði krossinn á Íslandi vinnur að fjölda verkefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert