Spáð frosti á sunnudag

Frysta fer á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Á sunnudag er spáð 3 stiga frosti í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu, en á Akureyri gæti frostið farið niður í 11 stig. Í Bolungavík, á Egilsstöðum og á Kirkjubæjarklaustri er spáð 3-5 stiga frosti.

Veðurhorfur á landinu um helgina gera ráð fyrir norðaustan 10-18 m/s á morgun, hvassast norðvestantil, en mun hægari vindi um landið sunnanvert. Lítlsháttar vætu með norðurströndinni en rigningu á láglendi á Austfjörðum, en annars verði úrkomulítið. Slydda eða snjókoma verður með köflum við suðurströndina og suðvestantil um tíma seint í nótt. Hiti verður á bilinu 0 til 6 stig, en vægt frost til landsins.

Spáin annað kvöld gerir ráð fyrir austlægri átt, víða 5-13 m/s. Dálítil él verða austast en annars yfirleitt bjartviðri og úrkomulítið. Þá kólnar um allt land annað kvöld.

Sunnudagsspáin kveður á um hæga austlæga eða breytilega átt og bjartviðri, en hægt vaxandi suðaustanátt með suðvesturströndinni um kvöldið. Frost verður víða 3 til 12 stig, kaldast norðaustantil, en frostlaust við suðurströndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert