Tryggingasvindl geta haft áhrif á iðgjöld

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir tryggingasvikin geta haft áhrif á …
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir tryggingasvikin geta haft áhrif á 5 til 7% iðgjalda til lengri tíma. mbl.is/Golli

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, segir að tryggingasvik séu almennt hagsmunamál fyrir neytendur, þar sem svikin gætu mögulega haft áhrif á iðgjöld til lengri tíma. Tjónagrunnur verður tekinn í gagnið til að sporna við svikunum.

„Þetta er samfélagslegt mál og almennt hagsmunamál fyrir neytendur, þar sem tryggingar eru í eðli sínu samtrygging. Við sem erum að borga iðgjöldin erum að borga tjón annarra,” segir Hermann. Hann bætir við að svikin leiði til mikilla útgjalda hjá tryggingafélögum og þar með almennings sem ber skaðann af brotastarseminni.

Hægt verður að fletta upp í tjónagrunni 

Til að sporna við svikunum verður tjónagrunnur tekinn í gagnið 15. janúar næstkomandi en Samtök fjármálafyrirtækja sjá um rekstur grunnsins. Með honum geta tryggingafélög sem taka þátt í verkefninu, meðal annars séð hvort sama tjón hafi fengist útgreitt hjá fleiru en einu tryggingafélagi. 

Í Noregi hefur slíkur grunnur verið notaður til margra ára með góðum árangri og hafa sérfræðingar í Noregi telja að samfélagslegur ábati hafi verið mikill vegna kerfisins eins og viðhorfskannanir þarlendis sýna. Hermann segir grunninn hjálpa til en einnig að það sé hlutverk tryggingafélaganna að vera vakandi fyrir svikum.  

„Stærstur hluti af okkar tjónum eru réttmæt tjón og við borgum þau með glöðu geði en svo sjáum við að einhver tjón eru ekki eðlileg og þá skiptir máli að við bregðumst við því,“ segir Hermann.   

Aðspurður af hvaða tagi svikin eru segir Hermann að í skipulögðum svikum sé hreinlega verið að sviðssetja tjón.

„Síðan eru tilvik þar sem kröfurnar eru ýktar. Kannski verða skemmdir á bílum en síðan verða afleiðingarnar líkamlegt tjón sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum.”

Tryggingasvik hafa verið vandamál á Íslandi og talið er að þau gæti numið nokkrum milljörðum króna á ári. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rannsakað þaulskipulögð svindl af þessu tagi en lögreglan telur ýmislegt benda til þess að erlendir brotahópar sendi fólk til Íslands til að framkvæma svindlin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert