Arfleifð Nínu heim

Una Dóra Copley gefur Reykjavíkurborg listaverkasafn móður sinnar, Nínu Tryggvadóttur.
Una Dóra Copley gefur Reykjavíkurborg listaverkasafn móður sinnar, Nínu Tryggvadóttur. mbl.is/Ásdís

Það er frísklegt haustveður í New York-borg þennan fallega sunnudag í nóvember þegar blaðamaður heimsækir hjónin og listafólkið Unu Dóru Copley og Scott Jeffries. Neðarlega á Manhattan í skemmtilegu hverfi kenndu við austurhluta borgarinnar má finna dumbrauða byggingu sem vekur enga sérstaka eftirtekt svona fljótt á litið. Útidyrahurðin er alsett veggjakroti sem hjónin leyfa að vera þar í friði. Afar ólíklegt er að þeir ungu listamenn sem þarna hafa sett sitt mark viti að fyrir innan þessar dyr eru miklar gersemar íslenskrar listasögu.

Scott tekur á móti blaðamanni og býður inn, beint inn í listaverkageymslu. Blaðamaður rekur upp stór augu og tekur andköf, enda eru þar undursamleg málverk upp um alla veggi. Fleiri eru vandlega geymd í skúffum og málverkaskápum, en þarna leynast tæplega tvö þúsund verk eins þekktasta listamanns Íslands, Nínu Tryggvadóttur.

Íbúð hjónanna er á efri hæð og er hún afar hlýleg. Vel má merkja að þar búa tveir listamenn því málverk, útskornar styttur og ýmsir forvitnilegir munir eru þar á veggjum og í hillum. 
Yfir kaffi og meðlæti höfum við nóg að ræða; listaverkagjöf þeirra til Íslands, bóhemlíf foreldra hennar og jafnvel er rætt um tilgátu þeirra hjóna um hver hafi valdið því að Nína lenti í fangelsi og var gerð útlæg frá Bandaríkjunum um skeið. En líf Unu Dóru í New York er líka forvitnilegt og við hefjum spjallið þar.

Versta götuhorn Ameríku

„Ég keypti þessa byggingu árið 1979 en hún var í algerri niðurníðslu og hafði verið yfirgefin. Hún var á horninu á „heróíni og kókaíni“ eins og þetta horn var kallað. Árið 1980 var grein í New York Times þar sem þetta götuhorn var nefnt versta götuhorn Bandaríkjanna, hornið mitt!,“ segir Una Dóra og hlær.

„Það voru engir gluggar á byggingunni og engar vatnslagnir í húsinu, en það var búið að stela öllum pípunum og selja,“ segir Scott.

„Ég fékk húsið á 13.000 dollara sem var heldur ekki mikill peningur á þeim tíma. Vindurinn blés hér í gegnum húsið. Hér hafði verið miðstöð eiturlyfjaneytenda til þess að koma saman og sprauta sig. Það er hér port þar sem þau hentu sprautunum og þegar ég keypti húsið náðu sprauturnar upp á aðra hæð hússins. Frá kjallara! Við erum að tala um sex fermetra port sem var fullt af sprautum,“ útskýrir Una Dóra.

„Svo var það árið 1985 að lögreglan lagði til atlögu og gerði rassíu hér í götunni. Ég var heima þennan dag og sá lögregluna koma inn götuna með tvær rútur. Lögregluþjónarnir hlupu inn í bygginguna á móti og leiddu út fjölda manns. Ég hafði ekki hugmynd um að þar væri svona margt fólk! Þeir röðuðu mönnum upp við húsvegg og krotuðu númer á bak þeirra með krít. Svo var þeim hent inn í rúturnar og keyrt í burtu. Við fréttum svo að þeir hefðu náð mörgum milljónum dollara úr þessum yfirgefnu húsum,“ útskýrir hún.

Hjónin Scott Jeffries og Una Dóra Copley eru bæði listamenn …
Hjónin Scott Jeffries og Una Dóra Copley eru bæði listamenn í New York. mbl.is/Ásdís

Mætti ekki á stefnumótið

Nína Tryggvadóttir er án efa einn merkasti listamaður sem Ísland hefur alið og segir Una Dóra að verk móður hennar hafi ætíð vakið athygli hvar sem þau voru sýnd.
„Hún var mjög þekkt á Íslandi, þjóðargersemi. Hún sýndi þar á hverju ári allt þar til hún lést,“ segir hún.

„Hún var með fyrstu einkasýningu sína hér á 57. stræti árið 1945. Það var á sama tíma og Pollock sýndi þar. Og tveimur árum síðar var hún aftur með einkasýningu þar. Það var frekar merkilegt því það var sjaldgæft að kvenlistamenn fengju að vera með einkasýningar á þessum árum þarna. Hún seldi mjög vel á þessum sýningum. Hún hitti pabba minn fyrst á opnun fyrstu sýningar sinnar,“ segir hún og segir söguna af þeirra fyrstu kynnum.

„Pabbi kom á sýninguna og sá nafnið Tryggvadóttir og vissi auðvitað ekkert um það. Hann skoðaði málverkin og var mjög heillaður. Galleríeigandinn kom til hans og spurði hann hvað honum fyndist. Hann sagði að þetta væru stórkostleg verk, bæði falleg og djörf. Þá spurði hann pabba hvort hann vildi hitta listamanninn. Pabbi svaraði að hann vildi gjarnan hitta „hann“,“ segir hún og hlær.

Var þetta ást við fyrstu sýn?


„Fyrir pabba já, alveg örugglega. Það tók mömmu lengri tíma. Þau ákváðu að hittast á stefnumóti og borða saman kvöldmat. Hún sveik hann og mætti ekki. Hann fór svekktur inn á annan veitingastað í hverfinu og þar sat hún og snæddi með öðrum manni! Svo var það svona ári síðar að samband þeirra hófst,“ segir hún.  

Héldu bestu veislurnar

Una Dóra segist hafa fengið afar menningarlegt og listrænt uppeldi. Foreldrar hennar leyfðu henni gjarnan að vera með í listamannaveislum og sem unglingur var hún farin að uppvarta á barnum í partíum.

Nína Tryggvadóttir hélt gjarnan málverkasýningar í Bogasal Þjóðminjasafnsins.
Nína Tryggvadóttir hélt gjarnan málverkasýningar í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon


„Þau héldu bestu partíin! Svo fórum við oft í veislur til annarra listamanna og þar voru rokkhljómsveitir og mikið dansað. Ég fór með þeim út um allt, og líka oft á opnanir,“ segir Una Dóra.

„Foreldrar mínir komu hingað til New York og hittu alls kyns fólk sem hugsaði eins og þau og leið eins. Ég öfunda yfirleitt engan en ég öfunda þau smávegis fyrir að fá að upplifa þetta andrúmsloft á þessum tíma, þegar þau voru á fertugs- og fimmtugsaldri. Þau voru svo opin, bæði fyrir því að kynnast nýju fólki og eins fyrir nýjum hugmyndum,“ segir hún.

„Mamma og pabbi áttu mjög áhugaverða vini sem voru jafn hliðhollir listinni og þau. Umkringdir list og fegurð og ljóðlist og stórkostlegum hugmyndum. Ég hélt að allir væru svoleiðis!“ segir hún og hlær.

Í fangelsi á Ellis Island

Um það leyti sem foreldrar Unu Dóru voru að kynnast var mikið fát í Bandaríkjunum í kringum „rauðu ógnina“ sem bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Joseph McCarthy blés upp. Nína lenti í því að vera ásökuð um að vera kommúnisti og átti það eftir að draga dilk á eftir sér. Ástæða Nínu og Al, eins og hann var kallaður, fyrir flutningum til Parísar og síðar til London var sú að Nína var gerð brottræk frá Bandaríkjunum. Sú saga hófst eftir að Nína og Al giftu sig en þá ákvað Nína að skreppa til Íslands að sækja föggur sínar. Á Íslandi var henni sagt að hún fengi ekki að fara aftur til Bandaríkjanna en þar sem hún var gift Bandaríkjamanni ákvað hún að láta á það reyna. Við komuna til Bandaríkjanna var hún handtekin á þeim forsendum að hún væri kommúnisti og henni varpað í fangelsi.

„Einhver hafði klagað hana en við vitum ekki fyrir víst hver. Við höfum reynt að grafast fyrir um þetta og okkur var sagt að þetta hefði verið vandamál með vegabréfsáritun,“ segir Scott.

„En það getur ekki staðist því hún var gift bandarískum manni,“ segir Una Dóra, en faðir hennar hafði þá þegar fengið bandarískan ríkisborgararétt.

„Þeir fóru með hana í fangelsi á Ellis Island. Þarna dvaldi hún í nokkrar vikur og var svo send aftur heim til Íslands,“ segir Una Dóra.

Þetta hlýtur að hafa verið skelfileg reynsla.

„Já, hræðileg. Þegar pabbi fór að taka á móti henni á flugvellinum komu þeir bara og tóku hana og fóru með hana í fangelsið. Pabbi reyndi allt sem hann gat. Hafði samband við þingmenn og ráðherra en allt kom fyrir ekki. Þau misstu af sjötta áratugnum hér. Þau hefðu átt að vera hér. Á árunum 1949 til 1952 var pabbi í New York en mamma á Íslandi. En ég græddi á þessu, ég fékk að fæðast á Íslandi,“ segir Una Dóra, en hún fæddist í Reykjavík árið 1951.

Foreldrar Unu Dóru neyddust til að vera í fjarbúð á þessum tíma en faðir hennar kom til Íslands á sumrin, áður en þau ákváðu að flytja til Parísar.

„Það hefur ekki verið auðvelt fyrir ungt nýgift fólk,“ segir hún.

Nína Tryggvadóttir málaði mynd af einkabarni sínu, Unu Dóru, þegar …
Nína Tryggvadóttir málaði mynd af einkabarni sínu, Unu Dóru, þegar hún var kornabarn. Þetta málverk er í uppáhaldi hjá Unu Dóru og er eitt af fáum málverkum sem hún ætlar að halda eftir en gefa svo safninu eftir sinn dag. mbl.is/Ásdís

„Hún fór allt of ung“

Við vendum kvæði okkar í kross og ræðum samband þeirra mæðgna, en Nína lést langt fyrir aldur fram, aðeins 55 ára gömul. Þá var Una Dóra aðeins sautján ára gömul. Hún segir þær mæðgur alltaf hafa verið nánar og góðar vinkonur.

„Hún var bæði fyndin og skemmtileg. Mamma var skilningsrík þegar ég var unglingur. Ég var með smá unglingaveiki síðasta árið sem hún lifði, því miður. Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um að hún myndi deyja. Hún var með krabbamein í eggjastokkunum,“ segir hún.

„Hún fór alltof ung. Hún átti eftir að gera svo margt. Hún hafði samt uppgötvað margt í lífinu, hluti sem við uppgötvum oft síðar í lífinu,“ segir hún og bætir við að hún sakni enn yndislegra foreldra.

„Ég veit að Ísland var alltaf í hjarta hennar og hún skipti aldrei um ríkisfang. Hún hélt nafninu sínu líka alla tíð, Tryggvadóttir. Hún var sjálfstæð. Við töluðum alltaf saman á íslensku, það var málið sem við áttum saman og gátum talað í leyni,“ segir hún og heldur áfram að lýsa móður sinni.

Safn Nínu Tryggvadóttur er enn í New York en verður …
Safn Nínu Tryggvadóttur er enn í New York en verður flutt heim þegar safnið verður tilbúið til þess að taka við verkunum. mbl.is/Ásdís

Gegnsýrð af málningu

Una Dóra rifjar upp uppátæki sín þegar hún var barn í París. Þá var hún gjarnan hjá mömmu sinni þegar Nína málaði sín meistaraverk. Hún segir að þótt hún hafi verið rólegt barn hafi hún átt það til að borða málningu móður sinnar.

„Aumingja mamma,“ segir Una Dóra og hlær. „Mamma var að mála í stofunni heima og ég sat þarna við hliðina á henni á litlum stól við lítið borð með litina mína. Ef hún þurfti að skreppa á snyrtinguna eða í símann laumaðist ég að litapallettunni hennar. Þetta var svo litríkt og freistandi að ég borðaði málninguna! Mamma kom að mér og þurfti að fara með mig á slysó að láta dæla upp úr maganum á mér. Þetta gerðist nokkrum sinnum!“ segir hún. 

„Við höfum farið til Parísar og Una bent á spítala og sagt: „Þarna var venjulega dælt upp úr mér!““ segir Scott og þau skellihlæja.

„Málningin er mjög eitruð. Í hvert skipti hélt hún örugglega að ég myndi deyja. Hún reyndi að færa túpurnar ofar í hillur og sagði mér að snerta þær ekki, en allt kom fyrir ekki og ég náði alltaf í þær. Ég þurfti að borða þessa liti! Ég segi gjarnan við fólk að ég sé gegnsýrð af málningu,“ segir hún og hlær. 

Ítarlegt viðtal er við Unu Dóru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert