Ráðist á dyravörð

Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni á …
Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fylltust í nótt. Þegar þær í Reykjavík voru orðnar fullar var byrjað að vista fólk, sem handtekið var vegna ýmissa meintra brota, í Hafnarfirði.

Laust fyrir miðnætti barst lögreglunni  tilkynning um líkamsárás á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur. Þar hafði verið ráðist á dyravörð og voru þrír handteknir og vistaðir í fangageymslum. Dyravörðurinn var fluttur á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar.

Rétt fyrir klukkan 21 í gærkvöldi barst lögreglunni tilkynning um líkamsárás í Vesturbæ Reykjavíkur. Í dagbók lögreglunnar segir að þar hafi maður verið kýldur ítrekað í andlitið. Gerandinn var farinn af vettvangi er lögreglan kom.

Þá handtók lögreglan mann á veitingahúsi í Kópavogi um  þrjúleytið í nótt vegna gruns um líkamsárás.

Um svipað leyti barst tilkynning um líkamsárás og rán í Efra-Breiðholti. Fjögur voru handtekin og vistuð í fangageymslum. Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Um klukkan fjögur í nótt fékk lögreglan svo tilkynningu um slys á veitingastað í Hafnarfirði. Þar hafði ofurölvi maður, eins og því er lýst í dagbók lögreglunnar, dottið á andlitið. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans. Tennur hans brotnuðu m.a. í fallinu.

Lögregla sinnti fjölmörgum öðrum verkefnum í nótt, m.a. mörgum er sneru að ölvunar- og fíkniefnaakstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert