Veðurstofan spáir stormi

Svona er vindaspáin klukkan 18 á morgun, mánudag.
Svona er vindaspáin klukkan 18 á morgun, mánudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands segir í athugasemd á vef sínum að síðdegis á morgun muni ganga í suðaustanhvassviðri eða -storm með rigningu á láglendi en snjókomu á heiðum og fjallvegum um landið sunnan- og vestanvert.

Í dag er útlit fyrir fremur hæga breytilega átt, léttskýjað veður og frost um land allt. Smálægð er suðvestur af landinu og sendir hún úrkomubakka að sunnan- og vestanverðu landinu í kvöld og bætir einnig í vind sökum þess, segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar í morgun. Bakkanum fylgir snjókoma á köflum en mögulega slydda við við sjávarmál.

Á morgun nálgast svo stærri og dýpri lægð landið. Gengur í suðaustanhvassviðri eða -storm síðdegis, 15-23 m/s, með rigningu á láglendi, en snjókomu til fjalla. Hægt hlýnandi veður á morgun. 

Suðlæg átt verður á þriðjudag, víða hvassviðri, og rigning um sunnanvert landið, en úrkomulítið norðan til á landinu. Hiti 3 til 9 stig en líklega að 14 stigum við norðurströndina ef hnúkaþeyrinn nær sér á strik.

Færð og aðstæður á vegum

Suðvesturland: Hálka er á Kjósarskarðsvegi og Krýsuvíkurvegi. 

Vesturland: Hálka er á Fróðárheiði og Heydal en annars víða hálkublettir.

Vestfirðir: Hálka er á flestum fjallvegum en hálkublettir eru mjög víða á láglendi. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.

Norðurland: Greiðfært er að mestu í Húnavatnssýslum en hálka eða snjóþekja á útvegum. Hálka er á Þverárfjalli en eitthvað um hálkubletti eða hálku í Skagafirði en hálka er í Eyjafirði.

Norðausturland: Hálka eða snjóþekja á vegum.  

Austurland: Hálka er á Héraði og á Fjarðarheiði en hálkublettir á Fagradal. Hálka og hálkublettir eru með ströndinni í Djúpavog en greiðfært þar fyrir vestan.  

Suðausturland: Hálkublettir eru fyrir vestan Kvísker. 

Suðurland: Hálkublettir eru á Reynisfjalli og víða á útvegum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert