„Mikilvægt“ að tryggja tilvist myndefnis

Bára Halldórsdóttir.
Bára Halldórsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Reimar Pétursson lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins, þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Bergþórs Ólasonar, sem komu við sögu í Klaustursmálinu, lagði í Héraðsdómi Reykjavíkur áherslu á mikilvægi þess að myndefni úr öryggismyndavélum verði lagt fyrir dóm.

Mikilvægt sé að tryggja tilvist myndefnisins áður en varðveislutími þess rennur út en viðmiðunarregla Persónuverndar er 90 dagar. Sá varðveislutími sé ekki nægjanlegur ef til dómsmáls kemur. „Umbjóðendur mínir vilja tryggja sönnun um það hvernig að brotinu gegn þeim var staðið,“ sagði hann. 

Um er að ræða myndefni úr öryggismyndavélum Alþingis og Dómkirkjunnar.

„Umbjóðendur mínir telja að freklega hafi verið brotið á rétti þeirra til einkalífs. Þetta hafi gerst þegar einkasamtal á Klaustri var hljóðritað að þeim óafvitandi og gert opinbert. Í því hafi falist brot gegn 229. grein almennra hegningarlaga,“ sagði hann. „Auk þess telst þessi háttsemi varða skaða- og miskabótaskyldu.“

Bára Halldórsdóttir var boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna upp­töku af ósæmi­legu fram­ferði þing­manna á barn­um Klaustur 20. nóvember síðastliðinn.

„Á þessu myndefni ætti að vera hægt að sjá nákvæmlega hvernig varnaraðili framkvæmdi þetta brot,“ sagði Reimar og nefndi að hægt væri að sjá hvernig Bára hafi haldið upptökunum leyndum og einnig væri hægt að sjá sannanir fyrir því „hversu styrkur ásetningur hennar var til brotsins“.

„Einnig ef svo ber undir hvort einhverjir framkvæmdu brotið með henni. Beiðnin snýst um að fá vitneskju um þetta,“ sagði hann.

Verjendur Báru mótmæltu kröfu sóknaraðila. Þeir bentu á umfjöllun Stundarinnar um málið og sögðu Báru þar hafa greint ítarlega frá því hvernig atvikum háttaði.

Reimar sagði mjög einkennilegt að varnaraði skuli mótmæla. Síðustu daga hafi Bára gefið sig óspart út í fjölmiðlum fyrir að vera boðberi gagnsæis á kostnað einkalífs en þegar spjótin beinist að henni sjálfri vendi hún kvæði sínu í kross. „Hverju hefur varnaraðili að leyna?“ sagði Reimar og taldi þetta vekja auknar grunsemdir hjá umbjóðendum sínum um að frásögn Báru af atvikum „sé ekki fyllilega heiðarleg“.

Reimar sagði umbjóðendur sína telja að frásögn Báru væri ekki sérstaklega trúverðug. Sagði hann „algjörlega óásættanlegt“ ef bjóða eigi dómstóli seinna meir að fjalla um málið án þess að hafa myndefnið til skoðunar.

Dómari ætlar að taka málið til úrskurðar og sagði hann að vonandi verði hann kveðinn upp í vikulok. Það gæti þó dregist.

mbl.is

Bloggað um fréttina