Vinnubrögð sem eigi ekki að líðast

Heimdallur segir skýrsluna um braggann áfellisdóm.
Heimdallur segir skýrsluna um braggann áfellisdóm. mbl.is/Rax

Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, fordæmir vinnubrögð meirihlutans í Reykjavík í ljósi nýrrar skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu.

„Borgarstjóri hefur alvarlega vanrækt skyldur sínar en unnið er að fjórum skýrslum til viðbótar á málum þar sem farið hefur verið gríðarlega fram úr fjárhagsáætlunum,“ kemur fram í yfirlýsingunni.

Bent er á að Innri endurskoðun hafi skilað úttekt á skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar árið 2015. Henni hafi fylgt 30 ábendingar og tillögur að úrbótum en flestum þeirra var ekki sinnt. Auk þess hafi innkauparáð gert ítrekaðar athugasemdir í fundargerðum við braggann.

„Allar þessar fundargerðir fóru fyrir borgarráð og hefðu því ekki átt að fara fram hjá borgarstjóra og því varla trúverðugt að afsökun borgarstjóra sé að hann hafi ekki vitað af málinu. Það að tölvupóstum Hrólfs Jónssonar, skrifstofu- og verkefnisstjóra eigna og atvinnuþróunar, hafi verið eytt þegar hann hætti störfum verður að teljast tortryggilegt og gefur sterklega til kynna að reynt hafi verið að sópa málinu undir teppið. Slík vinnubrögð eiga ekki að líðast í íslensku samfélagi,“ segir í yfirlýsingu Heimdallar.

Stjórn Heimdallar lýsir fullum stuðningi við ákvörðun Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en hún ætlar að segja sig úr starfshópi sem mun rýna niðurstöður skýrslu um braggann ef borgarstjóri víkur ekki.

„Í ljósi þess að skýrslan er áfellisdómur á borgarstjóra er vænlegast að hann axli ábyrgð sem æðsti maður stjórnsýslunnar í Reykjavík og vill stjórn Heimdallar hvetja grasrótir og stjórnir í öðrum flokkum til þess að taka afstöðu, sama hvort þeirra flokkur sé í meiri- eða minnihluta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert