Samdi lag í tæknifrjóvgunarferlinu

Það er alltaf sagt að hamingja fáist ekki keypt með …
Það er alltaf sagt að hamingja fáist ekki keypt með peningum en í þessu tilfelli geta þeir svo sannarlega gert það. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hugsaði að ef ég gæti notað þetta lag til að auka umtal og jafnvel fá stjórnvöld til að endurskoða þessa ákvörðun væri það frábært,“ segir Björn Þór Ingason sem samdi lag þegar hann og eiginkona hans voru í miðri tæknifrjóvgunarmeðferð fyrir nokkrum árum og ákvað að deila á Facebook í kjölfar frétta af nýrri reglugerð um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands vegna kostnaðar við tæknifrjóvganir.

Samkvæmt nýrri reglugerð greiða Sjúkratryggingar 5% af fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 30% af annarri, en ekkert eftir það. Áður var ekkert greitt með fyrstu meðferð en 50% með annarri, þriðju og fjórðu meðferð. Aðeins 35% líkur eru á að meðferð heppnist í fyrsta skipti og að meðaltali þarf fjórar meðferðir.

Björn Þór og eiginkona hans fengu þær fréttir árið 2013 að líkurnar væru ekki með þeim ef þau langaði að eignast barn upp á eigin spýtur. Eftir tvær tæknifrjóvgunarmeðferðir og fimm uppsetningar var biðin loks á enda þegar sonur þeirra fæddist árið 2015.

Áhyggjur af peningum bæti gráu ofan á svart

„Mín saga endaði mjög vel en það er því miður ekki þannig hjá öllum,“ segir Björn Þór. Mikil spenna og stress fylgi tæknifrjóvgunarmeðferðum og áhyggjur af peningum bæti þar ekki úr skák.

„Maður hefur heyrt sögur af fólki sem hefur ættleitt barn eftir langt tæknifrjóvgunarferli. Svo allt í einu kemur kraftaverkabarn undir því öll pressa er farin.“

Birni Þór segir ákvörðun heilbrigðisráðherra sorglega. „Það er alltaf sagt að hamingja fáist ekki keypt með peningum en í þessu tilfelli geta þeir svo sannarlega gert það ef meðferðin skilar tilætluðum árangri. Að sjálfsögðu ættu peningar ekki að stjórna því hvort að við fáum tækifæri á að upplifa þá hamingju sem barn getur veitt foreldrum sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert