Margir undir áhrifum við akstur

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast á næturvaktinni. Þrír menn voru handteknir í þremur mismunandi verkefnum, en allir áttu það sameiginlegt að vera undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

Einn þeirra var handtekinn um kl. 23:30 í gærkvöldi fyrir eignarspjöll á bifreið og ölvun á almannfæri. Annar þeirra var handtekinn rúmlega eitt vegna gruns um ölvunarakstur. Sá þriðji var svo handtekinn á fjórða tímanum í nótt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglan hafði afskipti af fleiri ökumönnum í nótt sem reyndust ekki vera allsgáðir undir stýri, en fleiri voru þó ekki handteknir að því er segir í dagbók lögreglu. 

Þar segir ennfremur að rétt fyrir klukkan þrjú í nótt hafi lögreglumenn ekið fram á bifreið sem var föst uppi á umferðareyju. Ökumaðurinn náði að losa hana en var þá stöðvaður af lögreglunni og reyndist ökumaðurinn vera ölvaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert