Banastuð í stúkunni í München

Spennan magnast fyrir leik Íslands og Spánar sem hefst klukkan …
Spennan magnast fyrir leik Íslands og Spánar sem hefst klukkan 18. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir að enn sé rúm klukkustund í að leikur Íslendinga og Spánverja hefjist í Ólympíuhöllinni í München eru stuðningsmenn íslenska landsliðsins þegar byrjaðir að streyma þar inn. Flestir virðast vongóðir fyrir leikinn, sem hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma, og eru sumir nú þegar farnir að æfa baráttuöskrin og svala sér með þýsku öli. Þetta segir Sigurður Sveinsson, betur þekktur sem Siggi Sveins, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og markakóngur, í samtali við mbl.is.

Dyggir stuðningsmenn Íslands eru klárir í slaginn gegn Evrópumeisturum Spánverja.
Dyggir stuðningsmenn Íslands eru klárir í slaginn gegn Evrópumeisturum Spánverja. Ljósmynd/Aðsend

Öl og íslensk lög í „horninu okkar“

„Við Íslendingar eigum hérna smá horn og það er allt að fyllast. Hér er mjög góð stemning og tilfinningin er sú að við gætum komið á óvart,“ segir Siggi og bætir við: „Hér er verið að spila íslensk lög og fólk er að fá sér eina og eina könnu. Menn eru að rífa sig í gang.“

Spurður um leik Íslendinga og Króata á föstudag segir hann að leikurinn hafi verið skemmtilegur og bætir við: „Eiginlega vorum við bara klaufar. Það féll ekkert með okkur þarna í um tíu mínútur. Maður sá það í leiknum að þessa ungu stráka langar svo í þetta. Með smá heppni hefðum við alveg eins getað unnið leikinn. Mér sýnist Spánverjar ekki vera eins sterkir og þeir voru þegar þeir urðu Evrópumeistarar. Ég held við eigum möguleika. Við eigum Óla Guðmunds, Ómar Inga og markmennina inni.“

Mjög erfiður leikur í vændum

Reynir Þór Reynisson, fyrrverandi þjálfari og landsliðsmaður í handknattleik, er einnig staddur ytra en þegar mbl.is náði af honum tali var hann í lest á leið í átt að Ólympíuhöllinni með góðum hópi stuðningsmanna.

Reynir sagði gríðargóða stemningu hafa verið í höllinni á föstudag og sagðist hafa verið ánægður með spilamennsku íslensku strákanna, þó að hún hafi ekki skilað óskaniðurstöðum. Eins og Siggi sagði Reynir fólk vera bjartsýnt fyrir leikinn í dag en bætti við: „Ég held að heilt yfir geri menn sér grein fyrir að þetta verði mjög erfitt. Við erum að fara að spila við núverandi Evrópumeistara og þeir eru þrælsterkir. Ég held að þetta verði mjög erfiður leikur.“

Þetta vaska stuðningsfólk sér til þess að Spánverjar fara ekki …
Þetta vaska stuðningsfólk sér til þess að Spánverjar fara ekki óttalausir inn í leikinn gegn Íslendingum. Ljósmynd/Aðsend
Þetta fólk var mætt snemma í Ólympíuhöllina í München til …
Þetta fólk var mætt snemma í Ólympíuhöllina í München til þess að njóta stemningarinnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert