„Ekki allir sem geta talað um þetta heima“

„Í lok menntaskólans áttaði ég mig á því að það …
„Í lok menntaskólans áttaði ég mig á því að það eru margir að kljást við geðsjúkdóma og um leið og ég opnaði mig þorðu vinir mínir að segja mér frá sínum upplifunum.“ Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

„Þegar ég var í grunn- og menntaskóla fannst mér ég þurfa að fela þetta, ég skammaðist mín og hélt ég væri ein,“ segir Arnrún Bergljótardóttir sem stofnaði MHA-samtökin, Mental Health Anonymous, og Instagram-reikninginn Undir yfirborðið í lok síðasta árs með það að markmiði að opna umræðuna um geðsjúkdóma.

„Í lok menntaskólans áttaði ég mig á því að það eru margir að kljást við geðsjúkdóma og um leið og ég opnaði mig þorðu vinir mínir að segja mér frá sínum upplifunum.“

Ekki allir sem geta rætt geðsjúkdóma heima hjá sér

Arnrún fékk hugmyndina ásamt vinkonu sinni, Helgu Østerby Þórðardóttur, síðastliðið haust. „Við erum báðar með kvíðaröskun og vorum að ræða af hverju ekki væru til fundir fyrir fólk með andlega kvilla, þar sem það getur kynnst öðrum sem eru að ganga í gegn um svipað og talað um vandamálin í nafnleynd. Það eru ekki allir sem geta talað um þetta við vini sína eða heima hjá sér,“ segir Arnrún.

Þrír fundir hafa verið haldnir og segir Arnrún þá hafa gengið ágætlega þrátt fyrir að þeir hafi lítið verið auglýstir. „Fólk er hrifið af hugmyndinni en það er svolítið erfitt að fá fólk til að þora að mæta.“

Arnrún opnaði Instagram-reikning samhliða samtökunum sem var ætlað að vekja athygli á fundunum. Hún segir árangur Undir yfirborðinu hins vegar mun sjáanlegri en þann sem hefur náðst með fundunum enn sem komið er, en þar birtir hún viðtöl sín við ungt fólk með geðsjúkdóma.

Mikil ásókn í viðtöl hjá Undir yfirborðinu

„Núna er síðan orðið eins konar sérverkefni vegna þess hve margir vilja koma í viðtal. Það er fjöldi fólks sem hvetur mig áfram og nú er ég búin að taka alls 38 viðtöl,“ segir Arnrún. „Viðtölin fjalla aðallega um geðsjúkdóma og reynslu fólks af þeim en þegar líður á mun ég líklega líka fjalla um afleiðingar eineltis, kynferðisofbeldis, heimilisleysis og þess háttar.“

„Mig langar að nýta þetta í að leyfa fólki að segja sögu sína og opna augu annarra, sem hafa kannski fordóma gagnvart geðsjúkdómum, og leyfa þeim að sjá að þetta er ekki eins og þeir halda.“

Við fólk sem langar að mæta á fundi MHA-samtakanna en eru hikandi vill Arnrún ítreka að um verndað umhverfi sé að ræða og að ekki þurfi að tjá sig á fundunum. „Það má líka bara hlusta.“

Fundirnir eru haldnir einu sinni í viku og eru ætlaðir öllum á aldrinum 16 til 25 ára. Nánari upplýsingar um stað- og tímasetningu funda má finna á Facebook-síðu samtakanna og á Instagram-reikningnum Undir yfirborðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert