Tekur undir gagnrýni Karls Gauta á Ingu

Halldór Gunnarsson segist ítrekað hafa reynt að ná sáttum innan …
Halldór Gunnarsson segist ítrekað hafa reynt að ná sáttum innan Flokks fólksins og tekur undir gagnrýni Karls Gauta Hjaltasonar.

„Sem fyrrverandi stjórnarmaður og fjármálaráðsmaður í Flokki fólksins, sem ég sagði mig frá vegna trúnaðarbrests við formann flokksins, vil ég staðfesta hvert orð í blaðagrein Karls Gauta Hjaltasonar, sem hann skrifaði í Morgunblaðið, þar sem hann útskýrir ummæli, sem hann lét falla um formann flokksins,“ segir Halldór Gunnarsson í yfirlýsingu sem hann hefur sent mbl.is.

Í aðsendri grein sem birt var í Morgunblaðinu í gær sagði Karl Gauti Hjaltason, áður þingmaður Flokks fólksins, meðal annars að óeðlilegt væri að formaður flokksins, Inga Sæland, væri líka prókúruhafi og gjaldkeri flokksins.

Þá sagði hann einnig óeðlilegt að sonur Ingu hefði verið ráðinn á skrifstofu flokksins.

„Ég var algjörlega sammála Gauta og þetta kom upp strax í byrjun eftir að þeir settust á þing. Á þingflokksfundi gerði Karl Gauti athugasemd við þetta, sem Inga átti erfitt með að sætta sig við og ég reyndi að miðla málum,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.

Vill flýta landsfundi

Hann segir málið aftur hafa komið upp í aðdraganda landsfundar flokksins þegar Karl Gauti hugðist flytja mál vegna athugasemda sinna. „Því var tekið mjög illa af Ingu og ég reyndi að sætta sjónarmið.“

„Ég reyndi það alltaf eins og ég gat því að styrkur Flokks fólksins var í þessum fjórum þingmönnum og ólíkum sjónarmiðum, ólíkri getu til þeirra til að flytja mál,“ bætir Halldór við.

Hann segist ekki hafa yfirgefið flokkinn þótt hann hafi sagt sig frá stjórnarsetu og segist vilja láta reyna á að ná skynsamlegri niðurstöðu í málefnum flokksins. Hann segist vilja flýta landsfundi svo hægt verði að sætta málin.

Karl Gauti Hjaltason og Inga Sæland.
Karl Gauti Hjaltason og Inga Sæland. Samsett mynd

Tárin dugðu ekki

Í samtali við mbl.is ís gær sagði Karl Gauti að með greininni væri hann að útskýra þau orð sem hann lét falla um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, á barnum Klaustri í nóvember.

„Ég er ekkert að koma í bakið á formanninum í þessum upptökum á þessum bar. Ég hef tjáð henni þetta, við hana sjálfa, líka í stjórninni og líka í þingflokknum,“ sagði Karl Gauti.

Halldór tekur undir orð Karls Gauta í tilkynningu sinni. „Þegar þessi ummæli voru sögð, var Inga Sæland formaður, gjaldkeri og prókúruhafi flokksins. Þegar þessi ummæli voru sögð hafði formaðurinn rétt áður farið að gráta á fundi með formönnum og þingflokksformönnum til að reyna að ná fram sínu máli, sem dugði ekki og var því tilefni þess, sem Karl Gauti sagði.“

Eftir að Klausturs-málið kom upp segist Halldór hafa reynt að ná sáttum á ný. „Óskaði ég eftir því við Karl Gauta að hann myndi senda Ingu stuðningsyfirlýsingu, vegna þeirra orða sem hann lét falla, sem honum þótti erfitt, en gerði.“

Brottreksturinn tilefnislaus

Í kjölfar þess að Karl Gauti sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu segist Halldór hafa beðið Ingu um að fyrirgefa orð Karls Gauta um að hún réði ekki við að stjórna flokknum.

„Sem hún gerði fram að hádegi næsta dag, en skipti svo um skoðun og boðaði svo til stjórnarfundar daginn eftir með ólöglegum fyrirvara,“ fullyrðir Halldór og segir ekkert sem þingmenn flokksins sögðu á Klaustri hafa gefið tilefni til brottreksturs.

Yfirlýsing Halldórs

Sem fyrrverandi stjórnarmaður og fjármálaráðsmaður í Flokki fólksins, sem ég sagði mig frá vegna trúnaðarbrests við formann flokksins, vil ég staðfesta hvert orð í blaðagrein Karls Gauta Hjaltasonar, sem hann skrifaði í Morgunblaðsgrein, þar sem hann útskýrir ummæli, sem hann lét falla um formann flokksins.

Þegar þessi ummæli voru sögð, var Inga Sæland formaður, gjaldkeri og prókúruhafi flokksins. Þegar þessi ummæli voru sögð hafði formaðurinn rétt áður farið að gráta á fundi með formönnum og þingflokksformönnum til að reyna að ná fram sínu máli, sem dugði ekki og var því tilefni þess, sem Karl Gauti sagði.

Þar sem ég hafði reynt í langan tíma að sætta ólík sjónarmið í stjórnun, sem Karl Gauti hafði barist fyrir að yrði bætt, óskaði ég eftir því við Karl Gauta að hann myndi senda Ingu stuðningsyfirlýsingu, vegna þeirra orða sem hann lét falla, sem honum þótti erfitt, en gerði.

Í framhaldi bað ég Ingu um að fyrirgefa Karli Gauta þessi orð, sem hún gerði fram að hádegi næsta dag, en skipti svo um skoðun og boðaði svo til stjórnarfundar daginn eftir með ólöglegum fyrirvara.

Ekkert af því sem þeir sögðu á umræddum stað gat gefið tilefni til brottreksturs. Það er rangt að þeir hafi boðað til þessara umræðna eða verið að undirbúa brotthvarf frá Flokki fólksins. Brottreksturinn á sér enga hliðstæðu í lýðræðisríki.

Halldór Gunnarsson

mbl.is