Handritshöfundur Ófærðar biðst afsökunar

Frá tökum á Ófærð á Austurvelli síðasta vor. Sigurjón Kjartansson …
Frá tökum á Ófærð á Austurvelli síðasta vor. Sigurjón Kjartansson handritshöfundur og Baltasar Kormákur leikstjóri við vinnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurjón Kjartansson, handritshöfundur Ófærðar, hefur beðist afsökunar á því að sögupersóna í þættinum lýsti annarri sögupersónu með þeim hætti að hann væri „korter í Downs“ í nýjasta þættinum, sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi.

Þetta gerir handritshöfundurinn í athugasemd við yfirlýsingu Félags áhugafólks um Downs-heilkenni á Facebook, en stjórn Downs-félagsins lýsti yfir „miklum vonbrigðum með orðavalið“, enda væri margt annað í boði heldur en að særa og hæðast að fólki með Downs-heilkenni.

„Hér er um að ræða þáttaröð framleidda af reyndum þáttagerðaraðilum, RUV og RVK Studios, og meðal annars fjármögnuð af opinberu fé. Þættirnir hafa einnig notið mikilla vinsælda hérlendis sem erlendis, og er áætlað að á annan tug milljóna manna hafi horft á fyrri þáttaröðina. Ábyrgðin er því mikil að varpa svo meiðandi ummælum fram, sem eru til þess fallin að viðhalda fordómum,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Sigurjón svarar félaginu og segist biðjast afsökunar á þessari setningu sem skrifuð var í munn hins uppskáldaða Markúsar. Hann segist gera sér grein fyrir því að hann hefði „mátt finna upp annað orðfæri til að undirstrika illt innræti persónunnar“.

Þetta var gert í hugsunarleysi og alls ekki hugmyndin að særa einn né neinn. Fyrir hönd RVK Studios og annara aðstandenda Ófærðar biðst ég afsökunar á þessu. Við munum hafa þetta í huga í framtíðinni,“ skrifar Sigurjón.

Yfirlýsingu Downs-félagins má lesa hér að neðan. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert