Harma ákvörðun Umhverfisstofnunar

Eins og sjá má er ástandið slæmt við Fjaðrárgljúfur.
Eins og sjá má er ástandið slæmt við Fjaðrárgljúfur. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Sveitarstjórn Skaftárhrepps harmar þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að hafa ekki starfandi landvörð við Fjaðrárgljúfur frá áramótum og fram á sumar. Þetta kemur fram í ályktun sem sveitarstjórnin sendi Umhverfisstofnun þar sem þess er krafist að landvarsla sé á svæðinu allt árið.

Há­kon Ásgeirs­son, teym­is­stjóri Um­hverf­is­stofn­un­ar á Suður­landi, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að staðan væri þannig að það sé ekki hægt að hafa göngustíga við Fjaðrárgljúfur opna að vetri þegar það er frost og þíða til skiptis. 

Umhverfisstofnun ákvað í síðustu viku að loka svæðinu vegna tíðarfars og ágangs ferðamanna. Áætlaður kostnaður við að ljúka upp­bygg­ingu nýs göngu­stígs meðfram Fjaðrár­gljúfri að aust­an er 48 millj­ón­ir króna og hef­ur Um­hverf­is­stofn­un lagt til að fram­kvæmd­in verði fjár­mögnuð á þessu ári.

Í ályktun sveitarstjórnar Skaftárhrepps segir að eftir reynslu síðasta vetrar sé ljóst að svæðið þoli ekki þann gestafjölda sem þarna er án þess að landvörður sé á svæðinu til að upplýsa gesti og stýra umferð.

„Núna strax viku eftir að svæðið var skilið eftir án landvörslu varð að loka því og verður það lokað þangað til jarðvegurinn þornar sem sýnir þá miklu þörf sem er á stöðugri landvörslu. Eftir núverandi lokun er svo áætlað að opna aftur og hafa opið án landvörslu,“ kemur fram í ályktuninni.

Sveitarstjórnin segir að þessi umgengni við náttúruna sé óásættanleg með öllu. Þess er krafist að Umhverfisstofnun haldi úti landvörslu alla daga allt árið.

mbl.is