Rok og kalt

Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er allt að sjö stiga frosti í dag en í kvöld snýst í norðanátt og herðir á frosti á morgun. Vetrarfærð er á öllu landinu og frekar slæmt ferðaveður á Vestfjörðum. Snjór á Norður- og Austurlandi og víða þæfingsfærð. 

Í dag er útlit fyrir hvassa norðaustanátt á norðanverðu landinu með snjókomu, jafnvel stormi á Vestfjörðum fram yfir hádegi. Sunnanlands verður mun nægari vindur og él. Hiti kringum frostmark. 

Í kvöld snýst í norðanátt og styrkur hennar jafnast yfir landið, víða verður strekkingur. Þá má búast við éljum á norðanverðu landinu, en léttir til syðra. Það kólnar með norðanáttinni og í kvöld er útlit fyrir frost á bilinu 2 til 7 stig. 
Það dregur síðan úr vindi og éljum þegar líður á morgundaginn og herðir á frosti, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austan og norðaustan 13-23 m/s og snjókoma, hvassast á Vestfjörðum. Mun hægari vindur á sunnanverðu landinu og él. Hiti kringum frostmark. Norðan 10-15 í kvöld. Él norðanlands, en léttir til syðra. Frost 2 til 7 stig.
Dregur úr vindi og éljum þegar líður á morgundaginn og herðir á frosti.

Á miðvikudag:

Norðan 5-10 m/s, en 10-15 austast á landinu. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 7 stig. Hæg breytileg átt um kvöldið og herðir á frosti. 

Á fimmtudag:
Austan 5-10 m/s á sunnanverðu landinu, snjókoma með köflum og vægt frost, en slydda við ströndina og hiti um frostmark. Hægari vindur norðan til, stöku él og talsvert frost. 

Á föstudag:
Austan og suðaustan 5-13. Rigning, slydda eða snjókoma um tíma sunnan- og vestanlands, hiti kringum frostmark. Hægari vindur norðaustan til, léttskýjað og frost 3 til 8 stig. 

Á laugardag:
Ákveðin suðaustanátt með rigningu eða slyddu og hita 0 til 5 stig. Hægari á Norður- og Austurlandi, þurrt og hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag og mánudag:
Suðlæg átt og úrkomusamt, en úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Hiti um og yfir frostmarki.

Yfirlit yfir færð á vegum frá Vegagerðinni

Vetrarfærð er á öllu landinu og frekar sæmt ferðaveður á fjallvegum á Vestfjörðum. Á Norður- og Austurlandi er víða snjóþekja eða þæfingsfærð og snjókoma eða éljagangur og sums staðar blint.

Suðurland: Hálka eða snjóþekja á vegum.

Suðvesturland: Hálkublettir á Reykjanesbraut og Kjalarnesi en hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Snjóþekja er á Mosfellsheiði. 

Vesturland: Þar er hálka eða snjóþekja mjög víða en þungfært á Holtavörðuheiði en unnið að hreinsun. Ófært er á Fróðárheiði og í Álftafirði.

Vestfirðir: Snjóþekja, hálka eða þæfingsfærð á vegum og skafrenningur á fjallvegum. Ófært er á Þröskuldum og þungfært á Steingrímsfjarðarheiði en unnið að hreinsun.

Norðurland: þar er víða snjóþekja á vegum og él eða snjókoma. Þungfært er í Héðinsfirði en unnið að hreinsun. Ófært er á Siglufjarðarvegi og í Héðinsfirði. 

Norðausturland: Víða snjóþekja eða þæfingsfærð og þungfært á Möðrudalsöræfum. Ófært er á Tjörnesi og Hófaskarði en unnið að hreinsun.

Austurland:  Hálka eða snjóþekja á flestum leiðum en þæfingsfærð á köflum milli Fáskrúðsfjarðar og Hafnar en unnið að hreinsun. Ófært er á Breiðdalsheiði og Öxi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert