Græn viðvörun á Suðurlandi

Léleg aksturskilyrði og almennt slæmt ferðaveður er á Suðurlandi, bæði …
Léleg aksturskilyrði og almennt slæmt ferðaveður er á Suðurlandi, bæði á Suðurstrandarvegi, Hellisheiði og Suðurlandsvegi austur að Mýrdal til klukkan 16. mbl.is/RAX

Veðurstofa Íslands hefur gefið út græna viðvörun fyrir 
Suðurland en þar er spáð suðvestanhríð. Þar sem spáin er óstöðug er um grænt ástand að ræða sem gildir til klukkan 16.

Spár frá því í morgun hafa ekki gengið eftir, og er nú lægðarmiðjan um 160 km SA af þeirri staðsetningu sem henni var spáð. Það þýðir að kjarni vestan hríðarinnar sem spáð var fer fyrir sunnan land.

„Gengur í suðvestan 13-20 m/s með dimmum éljum eða snjókomu og skafrenningi. Léleg akstursskilyrði og almennt slæmt ferðaveður á Suðurlandi, bæði á Suðurstrandarvegi, Hellisheiði og Suðurlandsvegi austur að Mýrdal,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Á vef Vegagerðarinnar segir að glögglega megi sjá á ratsjá og tunglmyndum að lægðin með snjó og vindi stefnir til austurs skammt fyrir sunnan land í stað þess að koma inn á Faxaflóa eins og áður var reiknað með. Hittir mögulega á Eyjafjöll og Mýrdal síðdegis. Spá um hríð og skafrenning suðvestan- og og sunnanlands er því afturkölluð.

Færð og aðstæður

Suðvesturland:  Hálkublettir eru á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu en annars er hálka eða snjóþekja nánast á öllum vegum. Þæfingsfærð er á Bláfjallavegi og Kjósarskarði.

Vesturland: Víða er snjókoma eða éljagangur og snjóþekja eða hálka, raunar þæfingur upp að Húsafelli en þungfært er á Heydal.

Vestfirðir: Snjóþekja og hálka á vegum en þæfingsfærð norður í Árneshrepp.

Norðurland: Hálka víðast hvar og snjóþekja á útvegum.

Norðausturland: Víða er hált, jafnvel flughált á Mývatnsöræfum. 

Austurland: Hálka til landsins en hálkublettir eða jafnvel greiðfært með ströndinni.  

Suðausturland: Víðast nokkur hálka eða krap.

Suðurland: Snjóþekja eða hálka víðast hvar, og sums staðar éljagangur. 

mbl.is