Snjókomubakki með allhvössum vindi

Unnið hefur verið að því síðan í nótt að moka …
Unnið hefur verið að því síðan í nótt að moka götur og gangstíga borgarinnar. mbl.is/​Hari

Snjókomubakki með allhvössum vindi, skafrenningi og blindu nálgast suðvestanvert landið um klukkan 10 til 12. Veðrið lagast svo um tíma en skellur aftur á eftir klukkan 14.

Blint verður með köflum fram undir kvöld, að því er kemur fram í upplýsingum frá Vegagerðinni.

Frá Hellisheiði og austur í Mýrdal verður suðvestanstormur og mjög blint frá því um hádegi í um þrjár klukkustundir.

Ekki er útilokað að vegir lokist um Hellisheiði og Þrengsli einhvern tíma frá klukkan 10 til 17 í dag.

Yfirlit yfir færð:

Suðvesturland: Éljagangur á svæðinu. Hálkublettir eru á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu en annars er hálka eða snjóþekja nánast á öllum vegum. Þæfingsfærð er á Bláfjallavegi og Kjósarskarði.

Vesturland: Víða er snjókoma eða éljagangur og snjóþekja eða hálka, raunar þæfingur upp að Húsafelli en þungfært er á Heydal.

Vestfirðir: Snjóþekja og hálka á vegum en þæfingsfærð norður í Árneshrepp.

Norðurland: Snjóþekja og  hálka víðast hvar enda víða ofankoma.

Norðausturland: Víða er hált, jafnvel flughált á Mývatnsöræfum. Hólasandur er þungfær en þar verður mokað

Austurland: Hálka til landsins, raunar flughált á Jökuldal, en hálkublettir eða jafnvel greiðfært með ströndinni. 

Suðausturland: Víðast nokkur hálka eða krap.

Suðurland: Snjóþekja eða hálka víðast hvar og éljagangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert